Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu í málum íslenskra blaðamanna, þar sem snúið hefur verið við dómum sem Hæstiréttur hefur fellt vegna skrifa þeirra, vekja upp ýmsar spurningar sem stjórnvöld þurfa að fara yfir og þarf að ræða í samfélaginu.
Þetta sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Róbert Marshall, þingmanni Bjartrar framtíðar. Ráðherrann sagði að dómarnir kölluðu að hennar mati á það meðal annars að farið yrði yfir þá löggjöf sem gilti í landinu um fjölmiðla. „Það heyrir reyndar ekki undir mig sem ráðherra en ég held samt sem áður að við þurfum að ræða það enda vekja þessir dómar upp ákveðnar spurningar sem við þurfum að rýna.“
Hanna Birna sagði stjórnvöld verða að hennar mati að fara yfir það hvort eitthvað í íslenskri löggjöf væri ekki í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands eða alþjóðalög í þessum efnum. Ekki væri hægt að líta framhjá því að slíkir dómar hefðu í tvígang fallið hjá Mannréttindadómstól Evrópu.
Frétt mbl.is: Dæmdir fyrir að vinna vinnuna sína
Frétt mbl.is: Erla Hlyns: Gríðarlega gleðifréttir
Frétt mbl.is: Erla Hlynsdóttir vann málið