Rannsókn lögreglu á andláti konu sem lést á heimili sínu í Breiðholti í lok september stendur enn yfir. Lögreglan bíður eftir að fá niðurstöður krufningarskýrslu og gerðrannsóknar á eiginmanni konunnar, sem er grunaður um að hafa orðið henni að bana.
Maðurinn var handtekinn 28. september og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 17. október, það var síðan framlengt til 14. nóvember á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Geðrannsókn stendur enn yfir á manninum en hann er sagðr hafa glímt við andleg veikindi. Rannsókn málsins er langt komin en ekki liggur fyrir hvenær niðurstöðurnar muni berast lögreglu.
Tilkynning barst um andlát konunnar skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 28. september frá manni, sem hinn grunaði hafði látið vita að konan væri látin. Þegar lögregla kom á vettvang vaknaði grunur um að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti, en maðurinn er grunaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konu sinnar, sem var 26 ára gömul, þannig að hún hlaut bana af.
Tvö börn þeirra hjóna, tveggja og fimm ára, voru á heimilinu þegar konan lést.