„Við höfðum tapað“

Mótmæli sem brutust út í og við lögreglustöðina við Hverfisgötu 22. nóvember 2008 eru ein hörðustu mótmæli sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þurft að glíma við. Síðdegis þann dag safnaðist ríflega 600 manns við lögreglustöðina til að fá mann lausann sem lögreglan hafði handtekið vegna ógreiddrar sektar.

Þetta kemur fram skýrslu sem Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, tók saman varðandi skipulag lögreglu við mótmælin 2008-2011, en hún var birt opinberlega í gær. 

Lögreglumenn sem tóku þátt í aðgerðunum þennan dag voru margir mjög ósátti við það hvernig brugðist var við til að stöðva mótmælin.

„Gas, gas, forðið ykkur!“

Í lýsingu með atvikinu, kemur fram að hópur fólks hafi farið að sparka í hurðir við inngang lögreglustöðvarinnar. Það náði síðan að brjóta sér leið inn í anddyrið að innri hurð. Eins var kastað ýmsu lauslegu í stöðina og við það brotnuðu sex rúður og hurðar skemmdust mjög illa. Kallaður var út aukamannskapur og mættu um 10 lögreglumenn sem voru á frívakt. 

Í skýrslunni segir, að í fyrstu hafi lögreglan reynt að leysa málið með friðsömum hætti. Lögreglumaður með gjallarhorn aðvaraði fólkið og hvatti það til að hætta aðgerðum, annars yrði lögreglan að grípa til frekari aðgerða. Fram kemur að fólkið hafi ekki hlustað á tilmæli hans og var gjallarhornið skemmt. Lögreglan hótaði svo að gasi yrði beitt með því að hrópa „gas, gas, forðið ykkur“. Að lokum var piparúða sprautað á fólkið sem hörfaði við það. 

Einn lögreglumaður slasaðist á hné í mótmælunum. 

Álfheiður greiddi sekt mannsins og var honum þá sleppt

Fram kemur í skýrslunni, að Álfheiður Ingadóttir alþingismaður hefði komið á svæðið ásamt eiginmanni og syni og óskaði eftir því að fá að greiða skuld mannsins sem hafði verið handtekinn, en hann var vistaður til að afplána vararefsingu í fangageymslu þar sem hann hafði ekki greitt sekt vegna mótmæla á Austurlandi. Sektin hljóðaði upp á 200 þúsund krónur.

Þegar maðurinn kom út af lögreglustöðinni færðist að mestu ró yfir mannskapinn og hélt fólkið því fram að með mótmælum sínum hefði lögreglan orðið að sleppa manninum, en það var ekki ekki rétt. Greiðsla sektarinnar varð til þess að honum var sleppt, segir í skýrslunni.

Börðu á dyrnar með stórum trédrumbi

Lögreglumaður sem gaf umsögn, segir frá því þegar einn forsprakki mótmælenda hafi sótt stærðarinna trédrumb og farið í félagi við aðra að berja honum í hurðina. „Sá ég þá, mér til skelfingar, að hurðin fór að gefa eftir og við [félagi lögreglumannsins] stóðum þarna einir á móti mannhafinu. Við fleygðum okkur umsvifalaust á hurðina og reyndum eftir bestu getu að halda henni lokaðri. Eftir nokkrar atlögur mótmælenda hrökk hurðin loks úr læsingunni og opnaðist rifa milli hurðar og hurðarstafs.

Var það okkur til blessunar að [annar lögreglumaður] var þá kominn inn í forstofuna og gat hann úðað piparúða, úr nýúthlutaða brúsanum sínum, út um rifuna um leið og læsingin gaf eftir. Uppúr þessu tókst okkur, í félagi við aðra lögreglumenn sem þá voru komnir inn í forstofuna, að tæma anddyrið og loka útidyrahurðinni aftur.“

Í umsögn annars lögreglumanns kom fram, að reglulega hefði verið beðið um meiri mannafla að lögreglustöðinni en hann var ekki tiltækur þar var meginþorri mannaflans hafi verið á Austurvelli. 

„Skyndilega kom neyðarkallið frá lögreglumönnum sem staddir voru á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, beðið var um mannafla þar sem fólk væri að brjótast inn á lögreglustöðina og lögreglumenn væru að verða undir þ.e. að þeir réðu ekki lengur við ástandið sem þar hafði skapast,“ segir lögreglumaðurinn.

Mikil vonbrigði meðal lögreglumanna

Hann segir ennfremur, að þegar maðurinn var leystur úr haldi hafi vonbrigði í andlitum sumra lögreglumanna ekki leynt sér en aðrir létu það í ljós með orðum.

„Við höfðum tapað og sá mannfjöldi með óæskilegri hegðun sinni hafði unnið. Vígvöllurinn sem var lögreglustöðin var skemmdur og þegar lögreglumenn litu yfir hann þá kom reiðin fram og spurningar komu fram sem e.t.v. var ekki hægt að svara.“

Hann segir að yfirmenn lögreglunnar hafi hrósað lögreglumönnunum fyrir vel unnin störf en „mörgum fannst það til lítils enda höfðum við ekki gert neitt nema að láta vaða yfir okkur.“

Hann segir ennfremur, að reiðin hafi verið áberandi hjá sumum dagana á eftir. „Þeir sem tjáðu sig voru hissa á því kjarkleysi að geta ekki tekið ákvarðanir um að leysa þann mannfjölda sem var fyrir utan lögreglustöðina upp t.d. með táragasi og eða öðrum vopnum sem lögreglan hafði yfir að ráða. Orðspor lögreglunnar hafði laskast þar sem hún var ekki þátttakandi í þeirri atburðarás sem hafði farið í gang nokkrum vikum áður, hlutleysi hennar var algjört þótt e.t.v. einhverjir einstaklingar ættu erfitt eins og aðrir þjóðfélagsþegnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert