Íbúar á Höfn í Hornafirði hafa fundið vel fyrir gasmenguninni sem hefur borist frá eldgosinu í Holuhrauni. „Þeir sem eru úti við finna fyrir óþægindum í öndunarvegi, menn fara ekki varhluta af því,“ segir Einar Sigurjónsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Höfn, í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir hann það jafnt eiga við um þá sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma og aðra. „Ég fer ekki varhluta af því þegar ég fer út,“ segir Einar en bætir við að flestir haldi sig innandyra. „Við getum staðfest að það eru óþægindi.“
Spurður almennt út í þá mengun sem hafi mælst á Höfn á undanförnum vikum og mánuðum segir Einar: „Þetta er langstærsti dagurinn, alveg langsamlega.“
Þetta er langmesti styrkur mengunar sem hefur mælst í byggð frá því eldgosið í Holuhrauni hófst. Á fimmta tímanum í dag sendu almannavarnir íbúum sms-skilaboð vegna mengunarinnar og þeir beðnir að halda sig innandyra.
Hann segir að mengunin hafi byrjað að þéttast yfir bænum á þriðja tímanum í dag og það hafi staðið til að verða fimm. Lögreglumaður var sendur af stað til að mæla mengunina í sveitinni í námunda við bæjarfélagið, en niðurstaða mælingarinnar liggur ekki fyrir að svo stöddu. Er þetta gert til að menn átti sig betur á dreifingu mengunarinnar á svæðinu.
Rétt fyrir klukkan 17 í dag mældist styrkur brennisteinsdíoxíðs 5,5 ppm (milljónustu hlutar), eða yfir 14.000 míkrógrömm á rúmmetra. „Þetta er skilgreint sem hættuástand samkvæmt loftgaedi.is, og tilmæli til fólks eru þau að vera inni, loka gluggum, slökkva á loftræstingu og hækka á ofnum,“ segir Einar.