Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra biður fólk að keyra börn sín í skóla á Höfn í Hornafirði í dag og gæta þess að halda þeim innivið þar sem búast má við gasmengun frá eldgosinu í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands má búast við gasmengun austur og suðaustur af gosstöðvunum, frá Héraði suður að Jökulsárlóni.
Á morgun er spáð ákveðinni norðanátt og því líkur á gasmengun suður af gosstöðvunum.
Síðdegis í gær mældist styrkur brennisteinsdíxoxíðs 18.500 míkrógrömm á rúmmetra og óttast er að gildin verði áfram há í dag.
Mengunina má rekja til brennisteinsdíoxíðs sem berst frá eldgosinu í Holuhrauni. Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að gildin væru gríðarlega há enda er þetta skilgreint sem hættuástand á vef Umhverfisstofnunar.
Aðspurður sagði Víðir að hann vissi til þess að læknar hefðu verið í sambandi við fólk og kannað með líðan þess, sér í lagi þeirra sem vitað var að væru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma.
„Það er búið að senda út tilmæli til foreldra barna í skólum og leikskólum á Hornafirði að keyra börn sín í skólann á morgun og að börnum verði haldið inni í skólum á morgun,“ sagði Víðir í gærkvöldi.
„Ef þetta verður svona hátt ennþá í fyrramálið þá gilda þau tilmæli okkar að fólk haldi sig innandyra. Þá má reikna með því að það verði lítil starfsemi utandyra,“ sagði hann ennfremur.
„Þetta mun því raska töluverðu á morgun á þessu svæði,“ bætti hann við.
Hann sagði að þetta væri með því mesta sem hefði mælst í þéttbýli frá því mælingar hófust. „Skalinn sem við erum með frá Havaí hann nær ekki nema upp í 15.000 [míkrógrömm á rúmmetra]. Þetta er ekki algengt þar,“ sagði hann og bætti við að það væri mjög sjaldgæft að svo há gildi mældust í byggð í eldgosum.
Aukin brennisteinsdíoxíðmenguun (SO2) mældist einnig á Kirkjubæjarklaustri og nágrenni.