Endurnýja aðeins lífsnauðsynleg lyf

Aðeins lífsnauðsynleg lyf verða endurnýjuð á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðsins í dag …
Aðeins lífsnauðsynleg lyf verða endurnýjuð á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðsins í dag og á morgun mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Aðeins lífsnauðsynleg lyf verða endurnýjuð á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðsins í dag og á morgun. Yfirlæknir sér um endurnýjanir vegna neyðartilvika.

Verkfall lækna í Læknafélagi Íslands hófst á miðnætti í nótt og leggja læknar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins niður störf til miðnættis aðfaranótt miðvikudags.

Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslustöðinni í Efstaleiti í Reykjavík hefur ekki verið mjög mikið að gera í dag en svo virðist sem upplýsingar um yfirvofandi verkfallsaðgerðir hafi komist vel til skila til íbúa í hverfinu.

Bent á að hringja aftur á miðvikudag

Í þeim tilvikum þar sem viðskiptavinir stöðvarinnar hringja og vilja endurnýja lyf sem ekki eru lífsnauðsynleg, er þeim bent á að hringja aftur á miðvikudag, þ.e. þegar verkfallsaðgerðum lækna á heilsugæslustöðvum er lokið. 

Aðeins einn læknir er við störf á hverri heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu, en þær eru fimmtán. Komi upp neyðartilvik, sinnir yfirlæknir sjúklingnum.

Þá sér hann einnig um endurnýjun á lyfseðlum fyrir lífsnauðsynleg lyf, líkt og insúlíni og hjarta- og krabbameinslyfjum. 

Frétt mbl.is: Hvenær fara læknarnir í verkfall?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert