Telja prófið ekki standast lög

Mynd er úr safni og tengist efni fréttar óbeint.
Mynd er úr safni og tengist efni fréttar óbeint. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tungumálakennarar á Norðurlandi vestra gera alvarlegar athugasemdir við samræmt könnunarpróf í ensku sem haldið var á yfirstandandi haustönn. Telja þeir það ekki hafa verið í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og efast um að prófið standist grunnskólalög.

Kemur þetta fram í tilkynningu Kennarasambands Norðurlands vestra (KSNV) sem m.a. var send á menntamálaráðuneytið og Námsmatsstofnun.

Þar segir að kennarar hafi hist á haustþingi KSNV, sem haldið var á Blönduósi þann 3. október, þar sem þeir hafi í sameiningu farið yfir könnunarprófið. Var það almenn niðurstaða fundarmanna að enskuprófið hafi verið mun þyngra en samræmdu prófin í bæði íslensku og stærðfræði sem lögð voru fyrir 10. bekk í haust.

Í tilkynningu sinni benda kennarar á að samræmd próf eru lögð fyrir nemendur í upphafi 10. bekkjar og er því þriðjungur af kennslu á unglingastigi eftir. „Ef markmið prófanna er að meta nemendur út frá aðalnámskrá grunnskóla þarf starfsfólk Námsmatsstofnunar annað hvort að færa samræmd próf aftur að vori, eins og tíðkaðist hér áður, eða greina hvað nemandi á að hafa lært í lok 9. bekkjar. Fyrir stofnun sem telur að hjá nemendum sé mikilvægi lesskilnings 60% af enskukunnáttu hans má búast við að sú stofnun eigi erfitt með að laga sig að nýrri aðalnámskrá þar sem ekki eru tilgreind skýr námsmarkmið í lok hvers bekkjar,“ segir í tilkynningu.

„Hins vegar er skýrt að í nýju aðalnámskránni eru hlustun, samskipti, frásögn og ritun jafnstórir þættir og lesskilningur.  Í samræmdu enskuprófi eru málfræði og ritun að samanlögðu metin til 40% og skiljanlega er torsótt að prófa samræmt í samskiptum og frásögn, en hvers vegna voru hlustunarkaflarnir felldir úr prófunum?“

Fram kemur að undanfarin ár hafi samræmd próf í ensku byggst upp á fjórum lesköflum sem fara stigvaxandi að þyngd, ásamt fjölvalsspurningum um innihald kaflanna og málfræðiatriði. „Á prófinu í haust voru fimm leskaflar og þó að prófið sjálft hafi ekki lengst [...] var þyngd þeirra þannig að ekki var auðvelt að greina þyngdarmun á fyrsta og síðasta kaflanum.“

Þá benda kennarar sérstaklega á að þeir nemendur sem eiga við námsörðugleika að stríða, og fengu því að hlusta á leskafla prófsins, hafi aðeins fengið að hlusta á þrjá af fimm köflum. „Síðan hvenær er það í höndum námsmatsfræðinga að greina hvenær og hvort nemendur með t.d. lesblindu þurfi aðstoð og þá er ekki verið að tala um aðstoð við að leysa verkefnin,“ segir ennfremur í tilkynningu.

Spyrja kennarar því við hvaða hæfniviðmið, námskrá eða námsþætti prófhöfundar hafi miðað við gerð þessara prófa sem og hvert markmið prófsins var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert