Hæstiréttur hefur tekið til greina kröfu erlends karlmanns um að börn hans og íslenskrar konu verði tekin úr umráðum konunnar og fengin sér með beinni aðfarargerð. Óumdeilt var í málinu að konan flutti börnin til Íslands með ólögmætum hætti.
Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. rakið að ákvæði 12. gr. laga nr. 160/1995 yrði að meta í ljósi þess markmiðs alþjóðasamnings um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa að stuðla að því að barn, sem foreldri næmi brott frá búseturíki og flytti með sér til annars lands, yrði fært til baka til búseturíkisins í því skyni að leyst yrði eftir lögum þess úr ágreiningi um forsjá barnsins og þannig komið í veg fyrir að foreldri tæki á ólögmætan hátt umráð barns í eigin hendur með búferlaflutningi milli landa.
Ætti foreldri, sem sæta þyrfti aðfarargerð, þess ávallt kost að varna því að gerðin færi fram með því að fara með barnið til ríkisins sem það hefði verið numið brott frá, en eftir réttarreglum þess ríkis yrði að tryggja velferð þess og öryggi þar til leyst hefði verið á lögmætan hátt úr ágreiningi um forsjá.
Þá vísaði Hæstiréttur til matsgerðar sem konan aflaði við meðferð málsins og taldi ályktanir matsmanns, sem skipt gætu máli við úrlausn um forsjá barnanna, ekki geta leitt til þess að talin yrði fyrir hendi alvarleg hætta á að börnin yrðu andlega eða líkamlega fyrir skaða eða kæmust á annan hátt í óbærilega stöðu næði krafa barnsföðurins fram að ganga.
Í því sambandi vísaði Hæstiréttur til þess að við hugsanlegum skaða af aðskilnaði barnanna við móður sína mætti sjá með því að hún dveldi með þeim í búseturíki þeirra, en konan þótti ekki hafa sýnt fram á að hún ætti ekki kost á dvöl þar í landi á meðan leyst yrðu úr um forsjá barnanna.