Það er óhætt að segja að nóg sé að gerast í Gamla Bíói við Ingólfsstræti en þar standa nú yfir miklar framkvæmdir. Verður húsinu breytt í fjölnota samkomuhús þar sem hægt verður að halda tónleika, kvikmyndasýningar, brúðkaup, ráðstefnur og fleira.
Gamla Bíó opnaði árið 1927 og var lengi stærsta og glæsilegasta samkomuhús Reykjavíkur. Auk kvikmyndasýninga fóru þar fram ýmsir fjöldafundir og tónleikar.
Í nóvember 1981 tók Íslenska Óperan við rekstri hússins og var því breytt í óperuhús. Í umfjöllun Morgunblaðsins að því tilefni, 3. nóvember 1981, var stuttlega sagt frá sögu hússins.
„Hljómburður í húsinu er talinn frábærlega góður og í Gamla bíói hafa fjölmargir beztu tónlistarmenn okkar „debúterað“. Petersen, sem keypti Gamla Bíó af erfingjum Wartburgs, kaupmanns í Kaupmannahöfn og stofnanda kvikmyndahússins, árið 1913. Petersen, sem bæjarbúar kölluðu ævinlega Bíópetersen, var stórhuga og sparaði ekkert til þess að húsið yrði sem glæsilegast,“ segir í umfjölluninni.
Á vormánuðum 2011 flutti Íslenska Óperan úr húsinu og í Hörpu. Síðan þá hafa ýmsir viðburðir átt sér stað í húsinu, m.a. leiksýningar, tónleikar og veisluhöld.
Í ár og í fyrra var hluti af dagskrá tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves haldin í Gamla Bíói og er nú unnið dag og nótt við það að gera húsið tilbúið fyrir hátíðina, en hún hefst í næstu viku.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, markaðs- og verkefnastjóri í Gamla bíó leiddi blaðamann mbl.is um húsið í dag.