Mikilvægast að slökkva eldinn

Frá fundinum í Stapa.
Frá fundinum í Stapa.

Í kvöld kynntu fulltrúar KPMG sóknaráætlun sem ætlað er að snúa við bágri fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Sveitarfélagið á við mikinn rekstrar- og skuldavanda að etja en í lok árs 2013 voru skuldir þess sem hlutfall af tekjum 248% eða yfir 40 milljarða króna. Samkvæmt lögum mega sveitarfélög ekki skulda meira en sem nemur 150% af reglulegum tekjum þeirra, skv. skuldaviðmiði og hefur Reykjanesbær til loka árs 2021 að leiðrétta skuldastöðuna.

„Okkar áherslur í kvöld og næstu mánuði munu fyrst og fremst snúast um framtíðina og „Sóknina", frekar en fortíðina,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í bréfi til fjölmiðla um fund kvöldsins. „Það er nefnilega þannig að þegar kviknar í skiptir mestu máli að slökkva eldinn og bjarga því sem bjargað verður. Að finna út hver kveikti í eða hvers vegna bíður betri tíma.“

Í sóknaráætlun KPMG fyrir Reykjanesbæ er lagt til að framlegð verði aukin um að lágmarki 900 m.kr. Það markmið geti nást hækki sveitarfélagið fasteignaskatta en sé það svigrúm fullnýtt getur það skilað um 400 milljónum króna á ári. Þar þarf þó einnig að koma til lækkun rekstrarkostnaðar um 500 milljónir en það jafngildir 5% lækkun rekstrarkostnaðar.

Lagt er til að fjárfestingar verði takmarkaðar við 200 milljónir á ári að jafnaði þar til fjárhagsmarkmiðum hefur verið náð. 200 milljón króna fjárfesting á ári jafngildir 14 þúsund krónum á íbúa í Reykjanesbæ, en á árunum 2010 til 2013 nam fjárfesting að meðaltali á áritæpum 50 þúsund kr á íbúa. Því er um verulega lækkun á fjárfestingum að ræða.

Lagt er til að mikilli greiðslubyrði næstu ára verði mætt með endurfjármögnun skulda og skuldbindinga sem styðji við fjárhagsleg markmið sveitarfélagsins.  Þá er áhersla lögð á að fjárflæði frá Reykjanesbæ til sjálfstæðra stofnanna og fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins verði stöðvað og að HS veitur hækki arðgreiðslur til eigenda sinna.

Ljósmynd/ Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert