Vefsíða Ríkis íslams opnuð á ný

Skjáskot

Vefsíða tengd hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, sem til skamms tíma var hýst hér á landi undir íslenskum lénum, er aftur aðgengileg á netinu á nýju léni. Nýja lénið er Khilafah.link en áður var notast við lénin Khilafah.is og Khilafa.is.

Eins og mbl.is hefur fjallað um lokaði Advania á hýsingu vefsíðunnar hér á landi þegar innihald hennar kom í ljós og ISNIC lokaði lénunum í kjölfarið. Vísað var einkum í viðskipaskilmála fyrirtækjanna en einnig í íslensk lög. Aðstandendur vefsíðunnar boðuðu í kjölfarið að hún yrði bráðlega opnuð á nýjan leik undir nýju léni.

Sami einstaklingur er skráður fyrir nýja léninu og íslensku lénunum, Azym Abdullah. Hann er hins vegar skráður til heimilis í Bretlandi hjá ISNIC en á Nýja Sjálandi vegna nýja lénsins. Upphaflega voru íslensku lénin skráð á annað heimilisfang á Nýja Sjálandi en í ljós kom að ekki var um eiginlegt heimilisfang að ræða heldur öryggishólf. Fyrirtækið sem útvegaði hólfið kannaðist hins vegar ekkert við nafnið Azym Abdullah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka