Tíu starfsmönnum fjölmiðlafyrirtækisins 365 hefur verið sagt upp en tilkynnt var um þetta á starfsmannafundi hjá fyrirtækinu í morgun. Þrír þeirra sem sagt hefur verið upp störfuðu á fréttadeild fyrirtækisins, allt konur. Samkvæmt heimildum mbl.is eru þetta þær Hanna Ólafsdóttir, Hödd Vilhjálmsdóttir og Jóhanna Margrét Einarsdóttir
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, segir að undanfarið hafi verið gripið til þess ráðs að fækka starfsfólki og hefur það meðal annars verið gert með því að ráða ekki í störf sem hafa losnað. Segir hann þetta eiga við um allar deildir fyrirtækisins.
Líkt og áður hefur komið fram hafa nýir stjórnendur 365 sagst vilja efla fréttastofuna og sjálfstæði hennar og auka hlut kvenna á fréttastofunni.
Sævar Freyr segir að hlutfallslega hafi fleiri körlum en konum verið sagt upp eða látið af störfum hjá fyrirtækinu síðustu mánuði. Hlutur kvenna á fréttastofunni hafi verið efldur og það hafi gengið vel.
Uppfært kl. 13.30
Hanna Ólafsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, er ein þeirra þriggja kvenna sem sagt var upp störfum á fréttastofu 365.
Uppfært kl. 13:32
Hödd Vilhjálmsdóttur og Jóhönnu Margréti Einarsdóttur var einnig sagt upp störfum en þær störfuðu á fréttadeild 365.