40 þúsund sms send út

Bláleit móða brennisteinsgass yfir Eyjafirði
Bláleit móða brennisteinsgass yfir Eyjafirði mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Almannavarnir hafa sent út rúmlega 40 þúsund SMS skilaboð í 25 þúsund síma vegna brennisteinstvíoxíðs mengunar á Vestur- og Norðurlandi í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá símafyrirtækjunum eru skilaboðin bæði á íslensku og ensku.

„Í þessu samhengi er rétt að árétta að SMS skilaboð eru viðbótar viðvörunartæki til þess að auðvelda almannavörnum að ná til íbúa ákveðins svæðis. Reynslan hefur þó sýnt að ekki er hægt að tryggja að SMS boðin berist í alla farsíma á umræddu svæði. Fyrir því eru margar tæknilegar útskýringar. Boðin eru send á tiltekna senda sem senda boð á þá síma sem eru tengdir við þann sendi á því augnabliki,“ segir á Facebook-síðu almannavarna.

Aukin brennisteinsdíoxíð (SO2) mengun hefur mælst í morgun á Norður- og Vesturlandi. Tilkynningar um aukinn styrk hafa borist frá Akureyri, Skagafirði og Stykkishólmi.  Hæstu gildi sem mældust í morgun voru um 5100 míkrógrömm á rúmmetra á Sauðárkróki, um 2700 míkrógrömm á rúmmetra í Stykkishólmi og um 4000 míkrógrömm á rúmmetra á Akureyri. Dregið hefur úr menguninni í Skagafirði og teljast loftgæði þar nú góð.

Veðurstofan gerir ráð fyrir því að í dag verði gasmengunin vestur af eldstöðvunum eða frá Reykjanesi í suðri, vestur á Barðaströnd og norður að Húnaflóa. Auk þess getur staðbundin mengun fundist á fleiri stöðum allt eftir veðurskilyrðum á hverjum stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert