Ásamt þeim tíu fastráðnu starfsmönnum sem sagt var upp hjá 365 í gær var átta verktökum jafnframt sagt upp samningum sínum. Þetta staðfestir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, í samtali við mbl.is. Því hættu alls 18 manns hjá fjölmiðlafyrirtækinu í gær.
Að sögn Sævars voru fjórir eða fimm einstaklingar af þeim átta þáttagerðarmenn á útvarpsstöðvum 365.
Í gær var sagt frá því á Smartlandi að öllum verktökum á útvarpsstöðinni X977 hefði verið sagt upp störfum í gær. Þar á meðal Önnu Töru Andrésdóttur og Katrínu Ásmundsdóttur sem voru með þáttinn Kynlega kvisti á miðvikudögum.
„Vonbrigðin eru að sjálfsögðu mikil, næstu þáttaefni ákveðin og svona en við erum að íhuga framhaldið og sjá hvernig hægt er að snúa sér í þessu,“ sagði Anna Tara í gær.