Fjármálastofnanir greiða mest í skatta

Kaupþing greiðir hæstu upphæðina í opinber gjöld á þessu ári samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra, sem birt var í morgun. 

Álagning gjalda á lögaðila hækkaði um 49,3% milli ára. Munar þar mestu um nýjan skatt sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, sem skilar 35 milljörðum króna í ríkissjóð.

Kaupþing hf. greiðir samkvæmt álagningarskránni 14,6 milljarða króna í opinber gjöld, Landsbankinn hf. greiðir 12,9 milljarða ogr Glitnir hf. 11,9 milljarða.

Ríkissjóður Íslands greiðir 9,8 milljarða, LBI hf., eða gamli Landsbankinn, greiðir 7,9 milljarða, Arion banki 7,5 milljarða og GLB Holding 6,2 milljarða. Íslandsbanki greiðir 5,6 milljarða, Reykjavíkurborg 3,2 milljarða og Eignasafn Seðlabanka Íslands 2,1 milljarð.

Í sætum 11-13 á listanum eru sjávarútvegsfyrirtækin HB Grandi, Samherji og Síldarvinnslan, sem greiða á bilinu 1,4-1,7 milljarða. Norðurál greiðir 1,1 milljarð, Ísfélag Vestmannaeyja sömuleiðis og Icelandair 963 milljónir.

Fjöldi lögaðila á skattgrunnskrá á landinu öllu í árslok 2013 var 38.110. Alls sættu 10.859 lögaðilar áætlun eða 28,49% af skattgrunnskrá. Til samanburðar sættu 11.299 lögaðilar áætlun á síðasta ári eða 29,86%. Heildarálagning á lögaðila nemur 181.089.244.552 kr., en á árinu 2013 nam hún 121.322.881.575 kr. Hækkun heildarálagningar er því 49,3%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert