„Þetta verður í fyrsta skiptið sem ég fæ að keppa við aðra handahjólakeppendur en hingað til hef ég aðeins tekið þátt í hlaupum þar sem ég keppi við hlaupara,“ segir Arna Sigríður Albertsdóttir sem er nú komin til Spánar þar sem hún mun keppa í X Handbike Race í Vall d'Uixó á Spáni, fyrst Íslendinga.
Arna freistar þess að komast á Ólympíuleikana í Ríó di Janeiro í Brasilíu árið 2016 og er keppnin á sunnudaginn tækifæri fyrir hana að kynnast því að keppa við aðra handahjólakeppendur og sjá hvar hún stendur í samanburði.
Áhugi Örnu á handahjólreiðum kviknaði 2010, fjórum árum eftir að hún lenti í skíðaslysi í Noregi og hlaut við það mænuskaða. Eftir slysið fór Arna í endurhæfingu, meðal annars hjá Fannari Karvel, íþróttafræðings, sem hefur áður hjálpað fólki með mænuskaða. Fannar er einmitt staddur með Örnu á Spáni.
„Ég var að leita á netinu að íþróttum sem ég gæti tekið þátt í og rakst á þessi handahjól. Ég fékk fyrsta hjólið mitt árið 2010 og hef tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu undanfarin þrjú ár. Svo fékk ég fyrsta racer-hjólið mitt í sumar,“ segir Arna og bætir við að þó ekki sé langur tími árs sem hægt sé að hjóla úti á Íslandi, þá getur hún tengt racer-hjólið við æfingatæki innandyra sem gerir henni kleift að hjóla allan ársins hring.
Fannar Karvel segir Örnu stunda stífar æfingar, og að á næsta ári sé stefnan sett á mótaröð sem gæti gefið henni keppnisrétt á Ólympíuleikana. „Æfingin er ekki ólík hlaupaþjálfun, hún hjólar 4-6 sinnum í viku og lyftir 2-3 í viku. Keppnistímabilið hennar er búið að vera langt en hún hefur lengi reynt að komast út á alþjóðleg mót, en það hefur gengið afar seinlega vegna þess að Hjólreiðasamband Íslands var stofnað nú í sumar og Arna fékk ekki keppnisleyfi fyrr en nú í haust.“
Handahjólakeppnin sem Arna tekur þátt í er 22 km löng og því aðeins styttri en Maraþonin sem Arna hefur áður tekið þátt í. „Þetta verður því meira eins og sprettur fyrir mig,“ segir Arna en keppt er á ca 550 metra, hringlaga keppnisbraut.
Enginn Íslendingur hefur áður tekið þáttí keppninni, en hún er vinsæl á meðal Evrópubúa, sér í lagi Spánverja, Ítala og Þjóðverja. Keppt verður eftir flokkum og er búist við að minnsta kosti 50 keppendum.
Sjá frétt mbl.is: Vann Óshlíðarhlaupið á handahjóli
Sjá frétt mbl.is: Lífið snerist við á örskotsstund