Þar sem ísinn rymur er sérblað sem fylgdi Morgunblaðinu föstudaginn 31. október. Þar segja Ragnar Axelsson (RAX) og fleiri frá ferð sinni um Grænland í máli og myndum.
Hér segir grænlenski veiðimaðurinn Hjelmer Hammeken frá því hvernig Grænland hefur breyst á undanförnum árum og áratugum.
Myndirnar sem RAX tók eru í myndasyrpu sem fylgir fréttinni. Þar að auki má hér sjá stutt viðtöl og myndbrot úr ferð þeirra.
Hægt er að nálgast blaðið í pdf-útgáfu neðst í þessari grein. Til að sjá myndirnar á sem bestan hátt er mælt með að skoða heila opnu í skjalinu í einu.
TEXTI: Hjelmer Hammeken, veiðimaður í Ittoqqortoormit
Á síðustu árum hefur ástandið á ísnum verið slæmt, ísinn er þunnur og ísbrúnin, þar sem selirnir halda sig mest, langt inni í firðinum. Þá er erfiðara fyrir okkur að stunda veiðar með hundasleðum. Nú kemur fyrir að við getum siglt að vetrarlagi en fyrir 20-25 árum var það óhugsandi. Selirnir eru mest við rekísinn og þar sem lagnaðarísinn er ekki lengur þarna á sumrin verðum við að sigla lengra en áður til að finna selinn og kosta meira til. Fyrir okkur atvinnuveiðimenn er selveiði að sumarlagi ekki lengur jafn álitleg og áður.
Það er meira um hvítabirni en áður, kannski vegna ástandsins á ísnum, eða það segja líffræðingarnir. Þeir segja að nú sé minna af ís og þess vegna komi björninn nær landi og við sjáum því birni sem hefðu átt að vera langt úti á lagnaðarísnum. En nú hefur ekki verið neinn lagnaðarís á sumrin síðustu 10-15 árin og við sjáum fleiri birni bæði á sumrin og veturna. Þá fer maður að velta fyrir sér hvort ástæðan sé ekki veiðikvótasetningin sem byrjaði fyrir tíu árum. Við megum nú ekki skjóta dýr með unga og við, veiðimennirnir í Ittoqqortoormit, megum bara veiða 35 dýr. Ég er því farinn að halda að kvótasetningin hafi borið árangur á okkar svæði.
Við veiðum árskvótann okkar nálægt þorpinu á aðeins hálfu ári, við förum ekki í langferðir til að skjóta hvítabirni eins og við gerðum áður. Sauðnautin hafa það gott enn sem komið er og munu hafa það gott meðan ekki rignir og snjóar á víxl á veturna.
Framtíð Grænlands, hvað með hana? Fyrir suma verður lífið auðveldara og fyrir aðra erfiðara nú á tímum hnattrænnar hlýnunar, eins og annars staðar á heimili okkar allra, sjálfri plánetunni. En sem atvinnuveiðimaður á tímum hlýnunar verði ég að segja að ég sakna fortíðarinnar, já, bara eins og hún var fyrir 15-25 árum.