Einar Ben mætir Friðriki Ólafs

Þröstur Þórhallsson og Friðrik Ólafsson sjást hér tefla en Friðrik …
Þröstur Þórhallsson og Friðrik Ólafsson sjást hér tefla en Friðrik og Einar Benediktsson munu taka þátt í skákmóti í dag sem er tileinkað Einari Ben athafnaskáldi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Afmælisskákmót Einars Benediktssonar verður haldið á veitingastaðnum Einari Ben í dag klukkan 14. Meðal keppenda verða margir af bestu skákmönnum Íslands. Tefldar verða sjö umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma. Að mótinu standa Skákfélagið Hrókurinn og Taflfélag Reykjavíkur.

Skáldið Einar Benediktsson fæddist 31. október 1864 og lést árið 1940. Hann var ástríðufullur skákmaður og meðal stofnenda Taflfélags Reykjavíkur um aldamótin 1900.

Einar tók þátt í fyrsta opinbera skákviðburðinum á Íslandi sem sögur fara af, þegar hann tefldi sýningarskák á þjóðhátíð í Reykjavík 1901 með lifandi taflmönnum gegn Pétri Zóphóníassyni, sem var besti skákmaður landsins í upphafi 20. aldar. Fjöldi áhorfenda fylgdist með skákinni, sem lauk með jafntefli, segir í tilkynningu frá aðstandendum mótsins í dag.

Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslands og fv. forseti FIDE, mun tefla á mótinu. Friðrik, sem verður 80 ára í janúar, var um árabil meðal sterkustu skákmanna heims og bar hróður Íslands víða. Hann tefldi sína fyrstu kappskák á Íslandsmóti árið 1946, þegar hann var 11 ára gamall.

Fleiri nafntogaðir meistarar heiðra minningu skáldsins með þátttöku á mótinu, m.a. stórmeistararnir Jóhann Hjartarson, Jón L. Árnason, Þröstur Þórhallsson og Hjörvar Steinn Grétarsson, og alþjóðlegu meistararnir Björn Þorfinnsson og Jón Viktor Gunnarsson. Alls verða keppendur 40 og í þeim hópi verða mörg bestu og efnilegustu börn og ungmenni landsins, segir ennfremur í tilkynningu.

Við setningu mótsins kl. 14 í dag mun Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur flytja afmælisræðu um Einar Benediktsson, en að því búnu mun Einar Benediktsson sendiherra leika fyrsta leikinn á móti Friðriki Ólafssyni stórmeistara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert