Meðal 1% hæstu í bandarísku stöðuprófi

Halla Sif Ólafsdóttir.
Halla Sif Ólafsdóttir.

„Mér fannst þetta mjög erfitt próf. Það stóð yfir í níu tíma og ég var ansi lúin þegar það var búið. Ég átti ekki von á þessari niðurstöðu,“ segir námslæknirinn Halla Sif Ólafsdóttir í samtali við mbl.is en hún var með þeim hæstu í bandarísku stöðuprófi sem lagt var fyrir námslækna í lyflækningum á Landspítalanum í haust.

Halla Sif skoraði 99 persentíli sem þýðir að í samanburði við alla sem tóku sambærilegt próf er Halla Sif meðal 1% efstu. 

Níu tíma krossapróf

Prófið heitir „Internal Medicine In-Training Examination“ og er stöðupróf sem lagt er fyrir þá sem eru í námi í lyflækningum í Bandaríkjunum. Prófið er sett upp sem krossapróf og á milli 8.000 og 9.000 deildarlæknar taka þetta próf á hverju ári að sögn Höllu. „Svo hefur það verið lagt fyrir íslenska deildalækna í lyflækningum og þá getur maður séð hvar maður stendur og borið það saman við hvernig deildarlæknum í Bandaríkjunum gengur,“ segir Halla Sif.

Að sögn Höllu undirbjó hún sig undir prófið með lestri og upprifjun en einnig með starfi sínu á Landspítalanum. „Maður er stanslaust að tileinka sér nýja þekkingu í starfi og það hjálpar til,“ segir Halla en hún hefur verið í starfsnámi á hjartadeild Landspítalans síðan í haust. 

Halla hafði þó í sumar undirbúið sig fyrir bandarísk læknapróf og telur að það hafi hjálpað henni í prófinu í september. „Þau eru uppsett á svipaðan hátt og þetta próf og prófað var úr efni í þeim prófum sem skarast við þetta próf. Ég hafði undirbúið mig vel fyrir þau og fékk því kannski smá forskot.“

Halla er þó ekki byrjuð að skoða sérnám í Bandaríkjunum en tók prófin til þess að hafa þann möguleika opinn. „Ég er bara á fyrsta ári í lyflækningum og á eftir á ákveða í hverju ég vil sérhæfa mig endanlega.“

Læknanám gott á Íslandi

Halla Sif segir að læknanám hér á landi sé mjög gott miðað við mörg önnur lönd. „Auðvitað hefur niðurskurðurinn haft áhrif á læknanema en þrátt fyrir það fáum við að vera mjög mikið inni á deildum og fáum mikla þjálfun þar. Það er ekki sjálfsagt.“

Aðspurð hvað niðurstöður prófsins þýða fyrir Höllu Sif segir hún að það sé góð leið til að sjá hvar hún stendur.

„Þetta sýnir vel þekkinguna sem ég hef og sýnir að ég er á réttu róli. Minnir mig  líka á að halda sama dampi. Ég veit alla vega að ég er á réttri hillu.“

Halla Sif Ólafsdóttir.
Halla Sif Ólafsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert