Innanríkisráðuneytið lítur á sóknargjöld til trú- og lífsskoðunarfélaga sem félagsgjöld. Forseti kirkjuþings gagnrýndi stjórnvöld fyrir það að fulltrúar Þjóðkirkjunnar þyrftu ítrekað að rökræða hvort gjöldin væru félagsgjöld eða ekki.
Sóknargjöld voru upphaflega innheimt af sóknarnefndum en árið 1987 tók ríkið yfir innheimtu þeirra. Samkvæmt lögum um sóknargjöld útdeilir ríkið hlutdeild af tekjuskatti til trú- og lífsskoðunarfélaga. Fjárhæðin nemur nú 750 krónur á mánuði en í fjárlagafrumvarpi næsta árs er lagt til að það verði 810 krónur. Alls mun þessi liður útgjalda ríkisins hækka um 185 milljónir króna á næsta ári. Sú tillaga tekur mið af niðurstöðu starfshóps innanríkisráðherra sem taldi að sóknargjald hafi verið skert meira en framlög til annarra stofnana sem heyra undir ráðuneytið í niðurskurði í kjölfar efnahagshrunsins.
Á kirkjuþingi Þjóðkirkjunnar sem fór fram í lok október gagnrýndi Magnús E. Kristjánsson, forseti þingsins, fulltrúa ríkisvaldsins fyrir það að fulltrúar kirkjunnar þyrftu ár eftir ár að rökræða við þá um hvort sóknargjöld til trúfélaga séu félagsgjöld eða ekki.
„Sóknargjöldin eru elstu félagsgjöld á Íslandi. Þótt innheimta þeirra færi í þann farveg sem nú er var það ekki hugmynd löggjafans að leggja sóknargjöld niður eða að hætta að tengja þau við aðild félagsmanna að trúfélögum,“ sagði Magnús eins og sagt var frá í Morgunblaðinu 27. október.
Í kjölfarið sendi mbl.is fjármálaráðuneytinu, sem Magnús gagnrýndi einnig fyrir útreikninga á sóknargjöldum, fyrirspurn um hvort það liti á sóknargjöld sem félagsgjöld eða ekki. Í skriflegu svari frá ráðuneytinu kom fram að það tæki ekki afstöðu til þess og vísaði þess í stað á innanríkisráðuneytið.
Í skriflegu svari innanríkisráðuneytisins er vísað í nýlegar skýrslur á vegum ráðuneytisins þar sem fjallað er um sóknargjöld sem félagsgjöld og að „engin sérstök andmæli hafa verið við því“.