Sambærilegar samantektir ekki til

Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, …
Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Rannveig Einarsdóttir, yfirmaður upplýsinga og áætlunardeildar LRH, og Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn á fundinum nefndarinnar. mbl.is/Eggert

Samantekt sem Geir Jón Þórisson tók saman um mótmælendur í búsáhaldabyltingunni var einstök og segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, að sér sé ekki kunnugt um að sambærilegar samantektir séu til. Þetta kom fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem yfirmenn lögreglunnar sitja fyrir svörum.

Lögreglustjóri sagði að eftir því sem hún kæmist næst hafi verið ákveðið að gera samantektina vegna þess að þeir atburðir sem áttu sér stað í kjölfar bankahrunsins hafi verið fordæmalausir og lögrelgan hafi viljað taka saman reynslu sína. Sagði Sigríður Björk að sumt í samantektinni hefði mátt vera með öðrum hætti og nefndi til dæmis hvernig nafngreindir einstaklingar hafi verið tengdir við stjórnmálaskoðanir og skyldmenni.

Helgi Hjörvar, fulltrúi Samfylkingarinnar, spurði hvernig þeir lögreglumenn sem vitnað var til í samantektinni hafi verið valdir og hvort að öllum lögreglumönnum sem tóku þátt í atburðunum hafi gefist færi á að komu sjónarmiðum sínum á framfæri. Lögreglustjóri svaraði því til að útilokað hafi verið að öllum hafi gefist kostur á því. Honum væri ekki kunnugt um hvernig heimildamenn hafi verið valdir.

Birgitta Jónsdóttir, fulltrúi Pírata, gagnrýndi lögregluna harðlega fyrir samantektina. Sjálf væri hún nafngreind oftar en nokkur annar einstaklingur í samantektinni. Spurði hún hvernig hún gæti rétt hlut sinn gagnvart þeim dylgjum sem kæmu fram í henni.

Sigríður Björk sagði að verið væri að reyna að hafa upp á öllum þeim sem væru nafngreindir í skýrslunni. Það væri hins vegar ekki hlutverk lögreglunnar að rétta hlut þeirra heldur opinberra eftirlitsstofnana. Þær leiðir væru opnar og væri mögulegt tjón og skaðabótakröfur metnar eftir hefðbundnum leiðum.

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, gerði samantektina.
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, gerði samantektina. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert