Dagur og Hjálmar afboðuðu sig

Reykjavíkurflugvöllur verður til umræðu á sameiginlegum fundi atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í fyrramálið. Á fundinn mæta fulltrúar Hjartans í Vatnsmýrinni og Isavia. Tilkynnt hafði verið um komu borgarstjóra og formanns umhverfis- og skipulagsráðs en þeir afboðuðu sig.

Eins og fram kom á mbl.is í dag þá samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar í morgun sínum með fjórum atkvæðum gegn þremur tillögu varðandi breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri. Í því felst að svokölluð neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar víkur, eins og ráðgert hefur verið um hríð.

Þá bar það til tíðinda á Alþingi í dag að framsóknarmenn boðuðu að lagt verði fram frumvarp á morgun og í því gert ráð fyrir að kosningabærir Íslendingar allir fái að eiga lokaorðið um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Fordæmdi meðal annars Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar. Þá hvatti Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, til þess að skipulagsvald Reykjavíkurborgar verði skert.

Um þessi mál verður eflaust þrefað á fundi þingnefndanna á morgun, en enginn verður þar frá meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur til svara. Samkvæmt heimildum mbl.is var reiknað með að þeir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar, kæmu fyrir nefndina og hafði það verið tilkynnt öðrum þeim sem kallaðir voru á fundinn. Sömu heimildir herma hins vegar að Dagur og Hjálmar hafi seint í dag afboðað sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert