Í niðurstöðu geðrannsóknar yfir Sigurði Inga Þórðarsyni, sem þekktur er sem Siggi hakkari, segir að hann sé sakhæfur en siðblindur. Vandi hans felist í hömluleysi og erfiðleikum við að fresta fullnægingu þarfa. Þá iðrist hann ekki gerða sinna og geti ekki sýnt merki djúprar sektarkenndar.
Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 1. nóvember sl. en Hæstiréttur staðfesti hann í dag. Sigurður Ingi verður í gæsluvarðhaldi til 28. nóvember næstkomandi.
Þá kemur fram að ríkissaksóknari hafi til meðferðar ellefu kynferðisbrotamál gegn ellefu drengjum en Sigurður Ingi hefur áður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára dreng sem hann tældi til kynferðismaka. Nokkur hinna ætluðu kynferðisbrota sem ríkissaksóknari hafi nú til meðferðar séu framin eftir að Sigurður Ingi var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára drengnum, sem sýni einbeittan brotavilja hans.
Samkvæmt gögnum málsins sætti kærði gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á ætluðum kynferðisbrotum hans frá 31. janúar 2014 þar til afplánun átta mánaða fangelsisrefsingar hófst vegna kynferðisbrotsins ofangreinda í byrjun mars. Brotastarfsemi Sigurðar stóð yfir nánast samfellt frá árinu 2010 þar til hann var hnepptur í gæsluvarðhald í lok janúar. Hann hefur verið á bakvið slá á slá síðan.
Frétt mbl.is: Ævintýraleg ákæra yfir Sigga hakkara