Tekist var á um vitnisframburð Julian Assange, stofnanda Wikileaks, við fyrirtöku í fjársvikamáli Sigurðar Inga Þórðarsonar, sem er betur þekktur sem Siggi hakkari, í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Verjandi Sigurðar krefst þess að Assange, sem er meðal vitna í málinu mæti fyrir héraðsdóm til að gefa skýrslu í málinu.
Ákæruvaldið segir að Assange, sem hefur dvalið undanfarin tvö ár í sendiráði Ekvador í Lundúnum þar sem hann fékk pólitískt hæli, sé reiðubúinn að gefa skýrslu í gegnum síma.
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður Sigurðar, mótmælir því. Hann segir að Assange sé lykilvitni og því sé gerð krafa um að hann mæti til landsins ella gefi hann ekki skýrslu. Ákæruvaldið segir aftur á móti að Assange sé ekki lykilvitni heldur aðeins eitt af níu vitnum sem tengjast Wikileaks sem hafa verið kvödd fyrir dóminn.
Sigurður mætti fyrir dóminn í fylgd lögreglumanna, en hann sætir nú gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni til 28. nóvember vegna annars máls, en ríkissaksóknari hefur til meðferðar 11 kynferðisbrotamál gegn 11 drengjum en Sigurður hefur áður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára dreng sem hann tældi til kynferðismaka.
Fjársvikamál lögreglustjórans í höfuðborgarsvæðinu á hendur Sigurði var þingfest í júní sl. vegna fjársvika, þjófnaða, eignarspjalla og skjalafals. Stærsti ákæruliðurinn varðar 6,7 milljóna króna fjársvik en í ákæru segir að Sigurður hafi blekkt eiganda vefverslunar til að millifæra fjármunina inn á reikning sinn í stað þess að leggja hann inn á reikning Wikileaks. Um var að ræða ágóða af sölu varnings til stuðnings uppljóstrarasíðunni.
Samkvæmt ákærunni sagði Sigurður eiganda vefverslunarinnar að hann starfaði í umboði Julian Assange og hefði því heimild hans til að fara fram á að peningurinn yrði lagður inn á umræddan reikning. Sigurður Ingi er ákærður fyrir að hafa nýtt sér féð í eigin þágu.
Vilhjálmur sagði í júní óhjákvæmilegt að Julian Assange komi fyrir dóminn og gefi skýrslu vegna þessa ákæruliðar.
Kári Ólafsson, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, sagði í dag, að ákæruvaldið gerði þá kröfu að Assange yrði kleift að gefa skýrslu fyrir dómi í gegnum síma. „Athygli dómara er vakin á því, að Julian Assange hefur um tveggaja ára skeið hafst við í sendiráði í London. Hann hefur gefið skýrslu fyrir lögreglu í gegnum síma og hann er tilbúinn að gefa skýrsluna jafnframt fyrir dómi símleiðis,“ sagði Kári.
Hann bætti við að Assange væri alls ekki lykilvitni í málinu, heldur aðeins eitt af níu sem tengjast starfsemi Wikileaks.. „Niðurstaða málsins er engan veginn að fara ráðast af þessum eina framburði,“ sagði Kári.
Vilhjálmur gerið þá kröfu að Assange væri skylt að gefa skýrslu í eigin persónu fyrir héraðsdómi. „Julian Assange er lykilvitni í málsvörn ákærða í þessu máli. Julian var nánasti yfirmaður ákærða og veitti honum heimild til þess að framkvæma það sem honum er gefið að sök í ákæru að hafa gert í leyfisleysi,“ sagði Vilhjálmur og bætti við að framburður Assange sé afar þýðingarmikill og því verði hann að koma fyrir dóminn.
„Þá liggur ekkert fyrir um það að Julian geti ekki komið hér fyrir dóm. Hann er staddur í London. Það eru mörg flug á dag frá London til Íslands, og það eina sem hann þarf að gera er labba út úr sendiráði Ekvador, fara út á Heathrow- eða Gatwick-flugvöll, og fljúga til Keflavíkur og taka þaðan leigubíl,“ sagði Vilhjálmur.
Dómari spurði Vilhjálm hvort Assange væri frjáls ferða sinna. Vilhjálmur sagði svo vera. „Hvernig veit verjandi þetta,“ spurði þá dómari. Viljálmur kvaðst hafa þær upplýsingar úr fjölmiðlum, „það er alkunna“.
Þá spurði Vilhjálmur hvers vegna ákæruvaldið falli ekki frá vitnleiðslu Assange fyrir dómi, þ.e. telji ákæruvaldið ekki að hann sé ekki mikilvægt varðandi sakfellingu í málinu.
„Við erum að tala um að það séu níu vitni í þessum hluta málsins, sem eingöngu snertir Wikileaks,“ sagði Kári Ólafsson og bætti við að það væri ljóst að vitnisburður Assange einn og sér væri ekki að fara ráða niðurstöðu málsins.
Þá tók Kári fram að Assange hafi sl. tvö ár dvalið í sendiráðinu í London. „Hann er ekkert á leiðinni þarna út vegna þess að hann á yfir höfði sér framsal til annars ríkis ef hann heldur sig ekki þarna innandyra,“ sagði Kári og bætti við að ákæruvaldið geti ekki spáð fyrir um það hversu lengi Assange muni dvelja þarna áfram.
„Hvað sem því líður þá er hann ekkert á leiðinni upp á Heathrow og því síður til Íslands,“ sagði Kári.
Dómari mun kveða upp úrskurð varðandi vitnisburð Assange og er von á niðurstöðu í næstu viku.