Beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi á að ganga til Þorsteins Hjaltested ábúanda, eins og jörðin að öðru leyti, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness.
Ágreiningur hefur verið um yfirráð Vatnsenda frá því Sigurður Kristján Hjaltested ábúandi lést, 1966, og málið komið nokkrum sinnum til kasta dómstóla. Jörðin gekk til Magnúsar, elsta sonar Sigurðar, að honum látnum, samkvæmt erfðaskrá sem Magnús Einarsson Hjaltested, föðurbróðir Sigurðar, gerði 1938. Aðrir erfingjar létu reyna á gildi erfðaskrárinnar. Að Magnúsi látnum gekk jörðin til elsta sonar hans, Þorsteins, skv. erfðaskrá, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu fyrir þremur árum að ekkert lægi fyrir um að skiptum á dánarbúi Sigurðar væri lokið og vegna málatilbúnaðar Magnúsar á sínum tíma væri beinn eignarréttur að jörðinni enn á hendi dánarbúsins þótt henni hefði verið þinglýst á nafn Magnúsar og síðar Þorsteins.