Samkvæmt fjáraukalagafrumvarpi fyrir næsta ár verða heildartekjur ríkissjóðs 669,1 mia.kr. á rekstrargrunni og aukast um 56 mia.kr. frá áætlun fjárlaga eða sem nemur 9%. Þá er gert ráð fyrir að heildargjöld verði 625,3 mia.kr. og aukist um 13,2 mia.kr. eða sem nemur 2,2% frá áætlun fjárlaga. Þannig er nú áætlað að afgangur á heildarjöfnuði verði 43,8 mia.kr. á árinu 2014, eða sem nemur 2,3% af VLF, en það er um 43 mia.kr. betri afkoma á rekstrargrunni en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum.
Þennan mikla bata í afkomunni á yfirstandandi ári má að mestu leyti rekja til óreglulegra tekjufærslna sem samtals er áætlað að nemi 48,3 mia.kr. Þar af eru 19,5 mia.kr. vegna arðgreiðslna frá viðskiptabönkum og Seðlabankanum umfram forsendur fjárlaga og 26 mia.kr. einskiptis tekjufærsla vegna áformaðrar lækkunar á skuldabréfi ríkissjóðs við Seðlabankann sem gert er ráð fyrir að muni færast sem sérstök arðgreiðsla á tekjuhlið ríkissjóðs en á móti komi jafn mikil afborgun inn á skuldina.