Heimildarmyndin Salóme er mjög óhefðbundin og hefur vakið mikla athygli hér á landi og utan landsteinanna. Raunar hefjast sýningar á myndinni ekki fyrr en annað kvöld í Bíó Paradís en Salóme var fyrst sýnd á Skjaldborgarhátíðinni í júní á þessu ári. Yfir þessari mynd hafa karlmenn jafnt sem konur tárast, enda sýnir hún á sérstakan hátt samband mæðgna en slík sambönd geta verið býsna snúin.
Ég hef aldrei sagt að ég sé fæddur listamaður. Kommon, Yrsa sko,“ segir Salóme, móðir Yrsu Roca Fannberg, á fyrstu mínútum heimildarmyndarinnar. Myndin Salóme er fyrsta heimildarmynd kvikmyndagerðarkonunnar Yrsu og fjallar um samband hennar við móður sína. Þær mæðgur eru síður en svo alltaf sammála, eins og ljóst er af fjölmörgum samtölum í myndinni en upphaflega stóð til að gera heimildarmynd um líf og list Salóme. „Mig langaði í raun og veru að gera mynd um ævi móður minnar og listina. Það var útgangspunkturinn. En svo varð efnið að einhverju allt öðru,“ segir Yrsa. Hugmyndin um rómantíska og ljóðræna mynd þurfti að víkja fyrir annarri sögu.
Áður en langt um líður í myndinni, sem áhorfandi heldur jafnvel að sé einmitt lífssaga Salóme, hefst það sem Yrsa kallar „borðtennisleikur“, „ping pong“ eða vals á milli dóttur og móður. „Ég kalla þetta kannski ekki valdabaráttu en þetta eru tvö egó að vissu leyti. Hún vefar allan tímann og ég tek upp allan tímann,“ segir Yrsa en hún kvikmyndaði allt efni myndarinnar sjálf og hófust tökur árið 2010. Alls tók hún upp 120 klukkustundir af myndefni og nánast allt inni á heimili móður hennar. „Þetta er líka um það hvernig mamma mín treystir og trúir ekki á heimildarkvikmyndagerð en ég ætla mér að gera mína mynd, sama hvað hún segir en mamma stendur upp fyrir sjálfa sig. Ég held að ég hafi verið frekar miskunnarlaus við hana,“ segir Yrsa.
Myndin sýnir einstaka listakonu að störfum. Salóme hefur ofið undurfögur teppi, saumað í þau og notað óhefðbundin efni í verkin, eins og þang, víra, óunna ull og fleira. Hæfni hennar er augljós og skín í gegn út alla myndina. Því er framleiðandinn, Helga Rakel Rafsdóttir, sammála en hún ákvað að framleiða myndina eftir lestur handritsins árið 2009. „Samband mitt við móður mína er líka mjög flókið,“ segir Helga Rakel þegar hún er spurð út í hvað hafi heillað hana við verkið. „Þess vegna talaði einmitt þetta efni til mín. Sjálf hef ég ekki hugrekki til að gera svona mynd en það er svo gaman að eiga þátt í að Yrsa komi sinni mynd áfram,“ segir hún. Mynd sem þessi segir í raun sögu margra og er fyrir vikið þakklátt verkefni, ef svo má að orði komast. „Mæðgnasambönd eru alltaf svo mikið tabú og mér finnst svo mikilvægt að snerta á þessu, ekki síst á Íslandi. Svona innileg, persónuleg og hugrökk heimildarmynd, bæði að forminu og efninu til, er svo mikilvæg fyrir samfélagið og líka fyrir kvikmyndagerð,“ segir Helga Rakel. Formið er sannarlega óhefðbundið því Yrsa og móðir hennar voru að mestu inni í íbúð Salóme og Yrsa var með eina tökuvél, þrífót og hljóðnema. Það er form sem þrengir nokkuð að kvikmyndadgerðarmanninum og viðmælandanum og er tiltölulega sjaldgæft í kvikmyndagerð hér á landi.
Sjálf hefur Salóme séð myndina og er sátt. Sá tími sem varið var í tökur vara á köflum erfiður fyrir mæðgurnar en útkoman er einstaklega hjartnæm.
Myndin hefur nú þegar hlotið þrenn verðlaun; Einarinn á Skjaldborgarhátíðinni, Best Nordic Documentary á Nordisk Panorama og Most Moving film á kvikmyndahátíð í Póllandi. Nánari upplýsingar um myndina er að finna á vef Skarkala, www.skarkali.net/salome.html. Myndin fer í almennar sýningar í Bíó Paradís á morgun, föstudaginn 7. nóvember.