Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður, sem flutt hefur mál fyrir hönd Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur fyrir Mannréttindadómstól Evrópu segir að hugtakið góð trú hafi skipt verulegu máli í öllum málunum. Nokkuð hafi borið á hugtakinu fyrir dómstólnum en minna fyrir dómstólum hér á landi.
Þetta kom fram í máli Gunnars Inga lögmanns á hádegisverðarfundi Lögfræðingafélags Íslands á fimmtudag. Fundurinn bar yfirskriftina Tjáningarfrelsi fjölmiðla og æruvernd í ljósi nýfallins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu.
„Góð trú er í einföldustu mynd grandleysi. Það að vita ekki betur en að manni sé óhætt að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert,“ sagði Gunnar Ingi. Sagði hann að hugtakið kæmi ekki fram í lögum sem varði blaðamenn sérstaklega, fjallað væri um ærumeiðandi aðdróttanir í fyrstu milligrein 237 greinar almennra hegningarlaga.
Í málum sem fjalla um tjáningarfrelsi sem tengjast blaðamönnum snýst málið um hvort hann hafi mátt vera sannfærður um að það sem hann birti væri réttmætt, hvort forsvaranlegum vinnubrögðum hafi verið beitt og hvernig málið hafi verið sett fram í fjölmiðlum.
Gunnar Ingi telur að vönduð vinnubrögð Bjarkar og Erlu hafi átt stóran þátt í að þær unnu sigur í málunum þremur.
Gunnar Ingi nefndi fyrst mál Bjarkar Eiðsdóttur sem sneri að umfjöllun um skemmtistaðinn Goldfinger, en málið var kært til Mannréttindadómstólsins árið 2009.
Sagði Gunnar Ingi að í niðurstöðu Hæstaréttar væri ekki fjallað um vinnubrögð Bjarkar við vinnslu fréttarinnar eða hvort hún hafi verið í góðri trú um að efnið sem hún tók við og miðlaði til almennings ætti við rök að styðjast. „Málið var afgreitt þannig af Hæstarétti að um væri að ræða fullyrðingu um staðreynd, fullyrðingu um refsiverða háttsemi, blaðamaðurinn hefði ekki fært sönnur um þessa fullyrðingu,“ sagði Gunnar Ingi.
Þegar Mannréttindadómstóll Evrópu tók málið fyrir var aftur á móti farið vel í saumana á vinnubrögðum Bjarkar og þýðingu þess fyrir málið. Bent var á að frásögnin sem birtist og hinar umdeildu staðhæfingar sem voru birtar hafi komið frá fyrstu hendi. Björk hafi lagt sjálfstætt mat á áreiðanleika frásagnarinnar og hún hafi líka stuðst við önnur gögn.
Þar var sérstaklega nefnd til sögunnar skýrsla sem lögð var fram í málinu og var meðal annars aðgengileg á vef bandaríska utanríkisráðuneytisins um rannsókn bandaríska sendiráðsins á kynlífsiðnaði víða um heim og fólst meðal annars í því að starfsmaður sendiráðsins fór á Goldfinger og var boðið vændi þegar hann hafði verið þar í nokkrar mínútur.
Um þetta var ekki fjallað í dómi Hæstaréttar og fann Evrópudómstóllinn að því, sagði Gunnar Ingi. Þarna hefði verið um að ræða gögn sem hefðu stutt frásögnina. Dómstóllinn taldi að ekki væri hægt að saka blaðamanninn um að grennslast ekki fyrir um sannleiksgildi hinna umdeildu ummæla, blaðamaðurinn hefði borið sig að í góðri trú um sannleiksgildi hinna umdeildu staðhæfinga af þeirri kostgæfni sem hægt var að ætlast til af ábyrgum blaðamanni.
Þetta var lykilþátturinn sem var liður í því mati dómstólsins að brotið hefði verið á rétti blaðamannsins í að ómerkja þessi ummæli og gera hana ábyrga fyrir þeim, sagði Gunnar.
Gunnar Ingi fór því næst yfir fyrsta málið sem Erla Hlynsdóttir höfðaði fyrir Mannréttindadómstólnum gegn íslenska ríkinu. Var hún dæmd fyrir meiðyrði vegna ummæla sem hún hafði eftir viðmælanda sínum.
„Það voru þrír leikendur í því máli og það var talað við þá alla og þeir fengu allir að koma sínum sjónarmiðum að í fjölmiðlum og bent var á að ummælin hefðu átt sér stoð í raunverulegum atvikum sem gerðust,“ sagði Gunnar Ingi. Bætti hann við að um þessa vörn Erlu hefði ekki verið fjallað um í héraðsdómi.
Gunnar Ingi sagði að Mannréttindadómstólinn hefði tekið öðruvísi á málinu, en í dómnum sem féll kom fram að Erla hefði leitast við að gæta jafnræðis í fréttaflutningi með því að birta sjónarmið allra.
Dómurinn taldi með hliðsjón af þessu og fleiru að væri ekki tilefni til að gagnrýna blaðamann fyrir vinnubrögðin. Sagði Gunnar Ingi að hún hefði ekki verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki grennslast fyrir um sannleiksgildi ummælanna, heldur hafi hún borið sig að í góðri trú og í samræmi við þá kostgæfni sem mætti ætlast til af ábyrgum blaðamanni.
Sagði Gunnar Ingi að í mörgum tilvikum væri útilokað fyrir blaðamann að staðreyna hverja einustu setningu og hver einustu ummæli sem birtast í umfjöllun.
Að lokum fjallaði Gunnar Ingi um annað mál Erlu Hlynsdóttur en dómur í því féll í síðasta mánuði. Í grein sem birtist í helgarblaði DV árið 2007 birtist umfjöllun um þátt eiginkonu Guðmundar Birgissonar í Byrginu en á þeim tíma sem umfjöllunin var birt höfðu hjónin bæði réttarstöðu grunaðs manns. Leitaði Erla meðal annars eftir viðtali við hjónin sem vísuðu á lögmann sinn.
Greinin birtist og krafðist eiginkonan ómerkingar á fjórtán ummælum. Tók Hæstiréttur ákvörðun um að lítill hluti ummælanna yrði ómerktur en hitt fékk að standa. Gunnar Ingi benti á að Hæstiréttur hefði meðal annars sagt að ummælin sem fengu að standa rýrðu orðspor konunnar ekki meira en orðið var.
Mannréttindadómstólinn taldi aftur á móti að ummælin hefðu átt sér næga stoð þegar umfjöllunin var skoðuð í heild sinni. Erla hefði ítrekað reynt að ná tali af hjónunum og hefði meðal annars rætt við lögmann þeirra sem kom skoðununum á framfæri.
Umfjöllunin hefði einkennst af jafnvægi og sagði Gunnar Ingi að dómstóllinn hefði talið að Hæstiréttur hefði ekki rökstutt með sannfærandi hætti að Erla hefði unnið í vondri trú, eða hagað sér í ósamræmi við það sem ætlast má til af ábyrgum blaðamanni.
Sagðist Gunnar Ingi meta niðurstöðuna þannig að þegar svona háttar, að blaðamaður birtir mál sem eigi erindi við almenning og þegar ekkert er við vinnubrögðin að athuga og aðeins lítill hluti umfjöllunarinnar felur í sér mögulega staðhæfing um staðreynd, gangi ekki að leggja það á blaðamann að vera sakfelldur fyrir meiðyrði.
Að lokum sagði Gunnar Ingi að hann teldi vönduð vinnubrögð Bjarkar og Erlu eiga stóran þátt í að málin þrjú hefðu unnist fyrir Mannréttindadómstólnum.
Frétt mbl.is: Dómstólum vorkunn að þurfa að greina á milli