Gaf besta vini sínum nýra

Kristján Gunnar Kristjánsson og Andrés Hafliði Arnarson hafa verið bestu vinir frá því að þeir kynntust 10 ára gamlir í Grafarvoginum. Fyrir þremur vikum var nýra úr Andrési grætt í Kristján sem er með nýrnasjúkdóminn IGA sem  dregur úr virkni nýrnanna og þurfti Kristján að fara þrisvar í viku í nýrnavél áður en aðgerðin var framkvæmd.

Kristján og Andrés eru hvor í sínum blóðflokknum og aðgerðin var fyrsta blóðmisræmisaðgerðin sem framkvæmd hefur verið hér á landi.

Það vakti mikla athygli þegar Kristján auglýsti eftir nýra á Facebook fyrr á árinu eftir að hafa verið um árabil á biðlista eftir nýju nýra. Fjölmargir buðust til að koma Kristjáni til aðstoðar en að lokum var það Andrés sem gaf besta vini sínum nýra.

Þeir vonast til að vekja athygli á mikilvægi líffæragjafa en Kristján hafði verið á biðlista eftir nýra í rúm þrjú ár og var kominn á lokastig sjúkdómsins þegar aðgerðin var gerð í október. Á vef Landspítalans er hægt að finna frekari upplýsingar um nýraígræðslur.

mbl.is hitt þá félaga fyrir helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert