Kaupstaðurinn Sauðárkrókur á sér ekki langa sögu sem þéttbýlisstaður, en árið 1871 settist þar að Árni Einar Árnason klénsmiður, sá fyrsti sem á þessum stað hafði þar fasta búsetu. Ári síðar fékk Hallur Ásgrímsson kaupmaður útmælda verslunarlóð.
Svo hröð var fólksfjölgunin fyrstu árin, ekki hvað síst með tilkomu fleiri kaupmanna og aukinnar verslunar, að rúmum áratug síðar er slík þörf orðin á gistirými að ráðist var í byggingu gistihúss og var það Halldór Stefánsson frá Víðimýri, sem keypti norskt hús sem staðið hafði í Grafarósi en þar áður á Hofsósi og flutti til Sauðárkróks til þessara nota.
Þetta „nýja“ hús hafði raunar verið flutt til Hofsóss frá Noregi um 1820, og þá ekki nýtt, og því veit raunar enginn hversu gamalt það er, en í dag er það eitt af tuttugu elstu timburhúsum landsins. Það mun hafa verið Sigvaldi Blöndal sem tók við rekstri hótelsins árið1889, sem fyrst gaf húsinu nafnið Tindastóll.
Ekki hefur á Tindastóli verið samfelldur hótelrekstur en um 1970 var slíkri starfsemi hætt, enda húsið orðið mjög illa farið, og þá sett á leigumarkað. En á tíunda áratug síðustu aldar var tekið til við endurgerð hússins og var það þáverandi eigandi Pétur Einarsson sem að því stóð og hófst aftur hótelrekstur á Tindastóli þann 1. apríl árið 2000.
Hótel Tindastóll er glæsilegt hús sem á sér merka sögu og má nefna að þar var meðal annars stofnað Náttúrulækningafélag Íslands að tilstuðlan Jónasar Kristjánssonar læknis, þar voru um árabil allir fundir sýslunefndar haldnir, og á Tindastóli gisti hin heimsþekkta söngkona Marlene Dietrich er hún heimsótti og skemmti breskum setuliðsmönnum á árum síðari heimsstyrjaldar.
Núverandi eigendur Hótels Tindastóls eru hjónin Selma Hjörvarsdóttir og Tómas H. Árdal. Þau hafa gert stórátak í gistihúsamálum Sauðárkróks, því auk Hótels Tindastóls og annars nýuppgerðs húss þar við hliðina, eiga þau og reka Gistiheimilið Miklagarð og yfir sumarmánuðina Hótel Miklagarð í heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Í tilefni af 130 ára afmæli hússins buðu þau hjónin nýverið öllum Skagfirðingum til leiksýningar á Hótel Mælifelli þar sem Elvar Logi Hannesson frá Komediuleikhúsinu sýndi tvo einleiki um Gísla Súrsson og Fjalla-Eyvind við mjög góðar undirtektir áhorfenda.