Tékknesk yfirvöld hafa enn ekki tekið til umfjöllunar beiðni um framsal á tveimur íslenskum stúlkum sem afplána nú fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm fyrir fíkniefnasmygl. Þórir Gunnarsson, aðalræðismaður Íslands í Tékklandi, segir ekkert liggja fyrir um hvenær ákvörðun um mögulegt framsal gæti legið fyrir.
Stúlkurnar tvær afplána dóma sína í fangelsi utan við höfuðborgina Prag og vinna í súkkulaðiverksmiðju. Upphaflega voru stúlkurnar dæmdar í sjö og hálfs árs og sjö ára fangelsi en dómarnir voru mildaðir í fjögur og hálft ár hvor. Framsalsbeiðni var lögð fram í sumar.
„Það er ekki komið neitt ennþá. Þetta er bara enn í vinnslu. Ég hafði samband við innanríkisráðuneytið í Tékklandi til að ýta á það í morgun. Þetta er allt í ferli en það er ekki búið að taka beiðnina neitt fyrir. Kerfið tekur langan tíma og ég hef enga tímasetningu,“ segir Þórir.