„Staða sem við viljum ekki vera í“

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Ómar Óskarsson

At­kvæðagreiðsla Fé­lags pró­fess­ora við rík­is­háskóla um hvort boða eigi til verk­falls 1.-15. des­em­ber næst­kom­andi lýkur klukkan 13 í dag. Atkvæðagreiðslan hefur staðið yfir frá því á þriðjudag og hefur þátttaka verið góð að sögn Rúnars Vilhjálmssonar, formanns félagsins. 

„Þátttaka er komin yfir 77% og því ljóst að þetta er orðin bindandi niðurstaða. Þátttakan er þegar orðin meiri en í könnun sem við gerðum nýverið þar sem 83% lýstu sig tilbúna til verkfalls,“ segir Rúnar. Hann segir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar þó koma í ljós í fyrramálið. 

Fé­lagið hef­ur verið með lausa samn­inga frá því í mars og að sögn Rúnars hefur samn­inga­nefnd­in ít­rekað beðið um viðbrögð við kröf­u­atriðum fé­lags­ins en án ár­ang­urs. Fá­ist þau ekki sé erfitt að semja um kaup og kjör. 

Við erum að binda vonir við það að ríkið leggi fram formleg viðbrögð og tillögur svo við getum séð hversu langt er á milli aðila og hvar gæti verið hægt að mætast. Við vitum það ekki fyrr en við fáum formleg viðbrögð við einstaka kröfuliðum hjá okkur og það höfum við ekki enn fengið þrátt fyrir það að samningar hafi verið lausir frá því í mars,“ segir hann.

Verkfall hefði gríðarleg áhrif á nemendur

Þá segir hann það munu hafa gríðarleg áhrif á nemendur, komi til verkfalls. „Þá munu öll próf í námskeiðum þar sem prófessor kemur að einhverju leyti að námsmati eða er umsjónarmaður námskeiðsins falla niður eða frestast. Þetta er mjög víðtækt og á allan hátt staða sem við viljum ekki vera í.“

Rúnar segir áhrifin víðtækari í framhaldsnámi þar sem prófessorar koma meira að námskeiðum, en engu að síður geti þau líka orðið mjög vítæk í grunnnámi. Þá bendir hann á að nemendur þurfi að skila ákveðnum einingafjölda til að fá námslán frá LÍN, og það sé í húfi.

„Svo er þetta líka alvarlegt fyrir háskólann því hann fær greitt samkvæmt svokölluðum þreyttum einingum, eða einingum í námskeiði sem nemandi fer með í próf. Fjöldi þreyttra eininga ákvarðar kennsluframlag ríkisins til háskólanna.“

Rúnar segist þó leyfa sér að vera bjartsýnn ennþá, og vonar að viðbrögð berist svo hægt sé að vinna að gerð samnings áður en til verkfalls komi. „Það er afskaplega dapurlegt að til verkfallsboðunar þurfi að koma til að knýja á samning.

Félagið heldur stjórnarfund á morgun þar sem aðalumræðuefnið verður niðurstaða atkvæðagreiðslunnar. Viðsemjendum verður svo tilkynnt niðurstaðan síðar á morgun. Rúm­lega þrjú hundruð virk­ir fé­lags­menn eru í Fé­lagi pró­fess­ora við rík­is­háskóla.

Prófessorar greiða atkvæði um verkfall

Rúnar Vilhjálmsson, formaður Fé­lags pró­fess­ora við rík­is­háskóla.
Rúnar Vilhjálmsson, formaður Fé­lags pró­fess­ora við rík­is­háskóla. mbl.is/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert