Skrifað hefur verið undir kjarasamning milli Starfsmannafélags Kópavogsbæjar og bæjarfélagsins og verkfalli hefur því verið aflýst.
Verkfalli Starfsmannafélags Kópavogs sem hófst kl. 06:00 í dag er hér með aflýst, segir í tilkynningu frá stjórn Starfsmannafélags Kópavogs.
Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, formaður SfK, segir að samningurinn verði kynntur fyrir félagsmönnum í kringum hádegið í dag en þegar mbl.is náði tali af henni var nýlokið að skrifa undir samninginn eftir 14 klukkustunda samningafund í húsnæði ríkissáttasemjara.
Aðspurð segir Jófríður Hanna að það sé aldrei þannig að allir séu fyllilega sáttir en lengra hafi ekki verið hægt að ná að þessu sinni. Samningurinn er sambærilegur við aðra samninga sem skrifað hefur verið undir að undanförnu og gildir hann til 30. apríl en samningurinn gildir frá 1. maí, sem var ein af kröfum SfK.
Eitthvað var um að starfsmenn í sundlaugum Kópavogsbæjar mættu ekki til vinnu í morgun en að sögn Jófríðar Hönnu var viðræðum ekki lokið fyrr en rúmlega sex í morgun er starfsmenn mæta til vinnu. Hún segist vonast til þess að starfsemi sundlauganna sé hafin og að fastagestir séu komnir ofan í.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, er afskaplega ánægður með að tekist hafi að afstýra verkfalli starfsmanna Kópavogsbæjar eftir langan samningafund. Hann segir að þó svo að talsvert hafi verið tekist á í nótt á samningafundinum vonist hann til þess að báðir aðilar séu sáttir við niðurstöðuna. Öll starfsemi bæjarfélagsins eigi því að vera með eðlilegum hætti í dag.
„Þetta er mikill léttir,“ segir Ármann þegar mbl.is heyrði í honum á sjöunda tímanum.
35 þúsund króna eingreiðsla og háskólabókun felld niður
„Nýr kjarasamningur var undirritaður milli samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, fyrir hönd Kópavogsbæjar, og Starfsmannafélags Kópavogs á sjöunda tímanum í morgun.
Samningurinn er hinn sami og Sambandið hefur gert við önnur bæjarstarfsmannafélög í landinu og var undirritaður í júlí síðastliðnum og gildir frá 1. maí. Þá greiðir Kópavogsbær 35 þúsund króna eingreiðslu til starfsmanna og sérákvæði um háskólamenntaða starfsmenn, svokölluð háskólabókun, fellur niður í lok samningstímans. Kópavogsbær mun einnig jafna kjör ófaglærðra á leikskólum við ófaglærða á leikskólum í Reykjavík.
Boðuðu verkfalli starfsmanna verður aflýst og verður starfsemi bæjarins með hefðbundnum hætti í dag,“ segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.