Kallaði eftir fríverslun við Japan

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Fumio Kishida, utanríkisráðherra Japans.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Fumio Kishida, utanríkisráðherra Japans. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Möguleg fríverslun á milli Íslands og Japans var á meðal þess sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ræddi við Fumio Kishida, utanríkisráðherra Japans, á fundi á mánudaginn en Gunnar er staddur í opinberri heimsókn í Japan. Lagði hann áherslu á að löndin tvö hefðu ríka sameiginlega hagsmuni. 

„Utanríkisráðherra lagði áherslu á samstarf ríkjanna á sem breiðustum grunni, þjóðirnar eigi margt sameiginlegt. Bæði löndin liggi á flekaskilum þar sem jarðhræringar hafa áhrif á líf íbúanna, þau búi yfir auðlindum svo sem jarðhita og sjávarfangi og bæði leggi áherslu á sjálfbærni náttúruauðlinda. Fagnaði utanríkisráðherra þeim skrefum sem Japan hefði stigið að undanförnu í gerð fríverslunarsamninga og taldi mikilvægt að Japan horfði einnig til þess að semja við þau EFTA ríki sem ekki væri þegar samningur við. Þá væri mikilvægt að ríkin gerðu sem fyrst með sér loftferðasamning til að styðja við vöxt í ferðaþjónustu,“ segir á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Ennfremur segir að utanríkisráðherra Japan hafi verið jákvæður í garð samstarfs við Íslands á fleiri sviðum. Fjallað er um heimsókn Gunnars Braga á fréttavef dagblaðsins Japan Times í dag þar sem segir að ráðherrann hafi sagt Ísland vera ákaft í að ná samningi um fríverslun við Japan og hvatt japönsk stjórnvöld að taka skref í þá átt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka