Farið er fram á að 413,9 milljóna aukafjárveitingu í framkvæmdasjóð ferðamannastaða í frumvarpi til fjáraukalaga til að ráðast í brýnar framkvæmdir vegna örrar fjölgunar ferðamanna. M.a. þarf að bæta göngustíga, setja upp öryggisgrindverk við fossa og hveri til að tryggja öryggi ferðamanna.
Fram kemur í frumvarpinu, að í fyrsta lagi sé lagt til að veitt verði 384 millljóna króna framlag til uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum. Í öðru lagi sé gerð tillaga um 29,9 milljóna kr. hækkun framlags vegna tekna af gistináttaskatti.
Hvað fyrra atriðið varðar þá segir í frumvarpinu, að markmið með fjárveitingunni sé að tryggja fjármuni til brýnna verkefna á ferðamannastöðum er lúta að verndun náttúru og öryggi ferðamanna í kjölfar örrar fjölgunar ferðamanna á síðustu árum.
„Ríkisstjórnin samþykkti að leita eftir frekari fjárheimildum í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við þessum vanda þar sem vinnu við fyrirkomulag á fjármögnun framkvæmda á ferðamannastöðum hefur seinkað og er tillögu þessari ætlað að bregðast við því. Um er að ræða brýnar framkvæmdir á gönguleiðum eða göngustígum auk uppsetningu öryggisgrindverka og palla við fossa og hveri til að tryggja öryggi ferðamanna,“ segir í frumvarpinu varðandi framlag til uppbygginga og verndaraðgerða.
Þá er tekið er fram, að samkvæmt reglugerð um úthlutunina séu styrkir greiddir út í þrennu lagi, þ.e. 40% greiðsla eftir undirskrift samnings, 40% eftir samþykkta framvinduskýrslu og 20% eftir fullnægjandi lokaskýrslu. Í reglugerðinni komi einnig fram að samningar skuli undirritaðir innan þriggja vikna frá því að ákvörðun um styrkveitingu er tilkynnt styrkþega. Hafi samningur, framvindu- eða lokaskýrsla ekki borist fyrir tilsettan tíma, falli styrkurinn niður og verði afturkræfur, hafi ekki komið fram sérstakar skýringar eða samið um annað. Í fjárlögum 2014 er gert ráð fyrir 261 milljónar framlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en að viðbættri 196 milljóna uppsafnaðri fjárheimild fyrri ára nemi fjárheimild sjóðsins um 457 milljónum fyrir yfirstandandi ár.
Hvað varðar gistináttaskattinn þá segir að í endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir árið 2014 sé áætlað að innheimtar tekjur af skattinum verði 249,9 milljóni sem sé 49,9 milljóna hækkun frá því sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu gildandi fjárlaga.
„Samkvæmt lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011, fær sjóðurinn lögbundið framlag sem nemur 3/5 hlutum tekna af gistináttaskatti en samkvæmt því verður lögbundið framlag 149,9 m.kr. á árinu 2014 sem er 29,9 m.kr. hækkun framlags frá gildandi fjárlögum. Verði þessar tillögur frumvarpsins samþykktar mun heildafjárheimild sjóðsins til framkvæmda á þessu ári því nema alls um 871 m.kr.,“ segir í frumvarpinu.