40 milljóna halli á rekstri Sunnuhlíðar

Farið er fram á 176,2 milljónir kr. vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar í Kópavogi í frumvarpi til fjáraukalaga. Ríkið yfirtök reksturinn í desember í fyrra sem var kominn í þrot hjá Sunnuhlíðarsamtökunum. Halli ársins 2014 er áætlaður 40 milljónir en stefnt er að hallalausum rekstri á næsta ári. 

Í frumvarpinu er óskað eftir hækkun á þessum lið í þremur tillögum. 

Í fyrsta lagi er farið fram á 40 milljóna hækkun fjárlagaliðarins vegna áætlaðs halla. Fram kemur, að með samningi velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins við Sunnuhlíðarsamtökin í desember árið 2013 hafi ríkið yfirtekið rekstur hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar, en reksturinn hjá samtökunum var kominn í þrot. Markmið samningsins var að tryggja öryggi íbúa og að ekki yrði röskun á starfsemi hjúkrunarheimilisins og þjónustu viðíbúa heimilisins.

„Í því skyni að halda utan um rekstur og framkvæmd þjónustunnar stofnaði ríkið einkahlutafélagið Vigdísarholt ehf. Við yfirtökuna var halli á rekstri þjónustunnar. Ný stjórn greip til hagræðingaraðgerða en halli ársins 2014 er þrátt fyrir það áætlaður 40 m.kr. Tillagan miðast við að jafna áætlaðan rekstrarhalla Vigdísarholts ehf. á árinu 2014 og leggja þannig grunn að því að Vigdísarholt ehf. taki við hallalausum rekstri hjúkrunarþjónustunnar í Sunnuhlíð. Reiknað er með að á árinu 2015 verði Sunnuhlíð rekin án halla,“ segir í frumvarpinu.

Í öðru lagi er farið fram á að fjárlagaliðurinn hækki um 86,2 milljónir. Tilefnið er tvíþætt. Annars vegar er óskað eftir 46,9 milljóna fjárheimild vegna oftekinna daggjalda.

Fram kemur að Sunnuhlíðarsamtökin hafi nýtt daggjöld, sem greidd séu fyrirfram í upphafi hvers mánaðar, til þess að greiða laun næsta mánaðar á undan. Þegar rekstur Sunnuhlíðar var tekinn yfir af ríkinu skuldaði Sunnuhlíð daggjöld sem svaraði einum mánuði.

Hins vegar er gert ráð fyrir 39,3 milljóna hækkun vegna orlofs starfsmanna sem nýr rekstraraðili yfirtekur samkvæmt lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

„Sunnuhlíðarsamtökin skulda ríkinu framangreinda fjárhæð og munu, í samræmi við samning velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins við Sunnuhlíðarsamtökin, gefa út tryggingarbréf til staðfestingar á skuldinni sem þinglýst verður á húseign félagsins. Fjárhæðin verður síðan millifærð til hlutafélags í eigu ríkisins, Vigdísarholts ehf, sem er nýr rekstraraðili hjúkrunarþjónustunnar í Sunnuhlíð,“ segir í frumvarpinu.

Í þriðja lagi er farið fram á að fjárlagaliðurinn hækki um 50 milljónir. Tilefnið sé samkomulag um kaup á búnaði og öðru lausafé á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi, en umsamið kaupverð er 50 milljónir. Samkomulagið var gert með tilvísun í samning velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um yfirtöku ríkisins á þjónustu við íbúa hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar í Kópavogi, að því er fram kemur í frumvarpi til fjáraukalaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert