Óskað eftir gæsluvarðhaldi

Skapti Hallgrímsson

Tveir menn, sem handteknir voru á Akureyri í gærmorgun grunaðir um að hafa reynt að brjótast inn hjá fulltrúa sýslumanns og kveikt í bifreið hans um nóttina við Grundargerði, voru leiddir fyrir dómara í morgun og óskað eftir því að þeir yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna.

Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, tók héraðsdómari sér frest fram yfir hádegi til að úrskurða um beiðni lögreglu. Rannsókn málsins var færð til rannsóknarlögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins í gær vegna þess að brotið beinist gegn fulltrúa sýslumannsins á Akureyri sem einnig er lögreglustjóri.

 Tveir handteknir vegna bílbruna

Vikudagur greinir síðan frá því í morgun að sérsveitarmenn á vegum ríkislögreglustjóra vakta hús fulltrúa sýslumannsins á Akureyri. Blaðið segir nágranna mannsins óttaslegna. 

Akureyri vikublað greinir síðan frá því að tvímenningarnir hafi áður komið við sögu lögreglu. Samkvæmt heimildum blaðsins er annar mannanna nýkominn úr fangelsi. Í kerfinu er nú til meðferðar manndrápsákæra á hendur öðrum brennuvarganna, þar sem þolandi var hætt kominn eftir árás með hnífi.

Blaðið hefur fengið staðfest að annar árásarmannanna réðist einnig á starfsmann Sýsluskrifstofunnar á Akureyri sl. mánudag. Hann sló starfsmann embættisins í brjóst og tók á honum þegar manninum var meinað um afgreiðslu þegar komið var fram yfir lokunartíma. Sýslumaður hafði ekki kært þá árás þegar blaðið fór í prentun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert