Enn einn handtekinn

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögreglan handtók þann sjötta í nótt í tengslum við bílbruna og hótanir í garð fulltrúa sýslumanns á Akureyri. Tveir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, tveir eru í fangaklefa en tveimur hefur verið sleppt.

Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru tveir leiddir fyrir dómara í gærkvöldi og var annar þeirra úrskurðaður í gæsluvarðhald en dómari tók sér frest fram yfir hádegi til þess að úrskurða um hvort hinum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Fyrr um daginn hafði síðan annar þeirra tveggja sem voru handteknir fljótlega eftir bílbrunann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald en hinum var sleppt þar sem dómari féllst ekki á gæsluvarðhaldsbeiðni lögreglu. 

Í gær voru þrír síðan handteknir og er einn þeirra nú kominn í gæsluvarðhald, einum hefur verið sleppt en sá þriðji bíður niðurstöðu dómara. Hann er því í gæslu lögreglu líkt og sá sem var handtekinn í nótt.

Friðrik Smári segir að rannsóknin sé í fullum gangi og mynd sé að koma á málið. Hann getur ekki tjáð sig frekar um rannsóknina að svo stöddu enda hún í fullum gangi.

Fórn­ar­lamb árás­ar­inn­ar er full­trúi sýslu­manns­ins á Ak­ur­eyri. Er talið að um hefnd­araðgerð gagn­vart hon­um hafi verið að ræða. Munu menn­irn­ir hafa komið grímu­klædd­ir heim til manns­ins aðfaranótt miðviku­dags og ógnað hon­um. Síðar um nótt­ina stóð bif­reið manns­ins í ljós­um log­um, og er talið að heima­til­bú­inni eld­sprengju hafi verið kastað í hana, en hún stóð mann­laus við heim­ili full­trú­ans. Lög­reglu­menn úr sér­sveit­inni vöktuðu hús manns­ins í gær­dag.

Ásdís Ármanns­dótt­ir, sýslumaður á Ak­ur­eyri, seg­ir að starfs­fólk embætt­is­ins sé slegið óhug vegna árás­ar­inn­ar á heim­ili sam­starfs­manns þess. Vit­an­lega geti fólk átt von á hót­un­um, sér­stak­lega lög­reglu­menn, en að svona skipu­lögð at­laga sé gerð að heim­ili manns sé eins­dæmi. Ásdís seg­ir í skoðun hvort efla þurfi ör­yggi við heim­ili annarra starfs­manna embætt­is­ins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert