Lögreglan handtók þann sjötta í nótt í tengslum við bílbruna og hótanir í garð fulltrúa sýslumanns á Akureyri. Tveir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, tveir eru í fangaklefa en tveimur hefur verið sleppt.
Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru tveir leiddir fyrir dómara í gærkvöldi og var annar þeirra úrskurðaður í gæsluvarðhald en dómari tók sér frest fram yfir hádegi til þess að úrskurða um hvort hinum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Fyrr um daginn hafði síðan annar þeirra tveggja sem voru handteknir fljótlega eftir bílbrunann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald en hinum var sleppt þar sem dómari féllst ekki á gæsluvarðhaldsbeiðni lögreglu.
Í gær voru þrír síðan handteknir og er einn þeirra nú kominn í gæsluvarðhald, einum hefur verið sleppt en sá þriðji bíður niðurstöðu dómara. Hann er því í gæslu lögreglu líkt og sá sem var handtekinn í nótt.
Friðrik Smári segir að rannsóknin sé í fullum gangi og mynd sé að koma á málið. Hann getur ekki tjáð sig frekar um rannsóknina að svo stöddu enda hún í fullum gangi.
Fórnarlamb árásarinnar er fulltrúi sýslumannsins á Akureyri. Er talið að um hefndaraðgerð gagnvart honum hafi verið að ræða. Munu mennirnir hafa komið grímuklæddir heim til mannsins aðfaranótt miðvikudags og ógnað honum. Síðar um nóttina stóð bifreið mannsins í ljósum logum, og er talið að heimatilbúinni eldsprengju hafi verið kastað í hana, en hún stóð mannlaus við heimili fulltrúans. Lögreglumenn úr sérsveitinni vöktuðu hús mannsins í gærdag.