Maðurinn sem ók bifreiðinni sem hafnaði út í Ölfusá er á lífi en hann fannst kaldur og hrakinn á bakka árinnar skammt frá flugvellinum á Selfossi klukkan 10:20.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi var maðurinn fluttur á sjúkrahúsið á Selfossi þar sem hann er til rannsóknar og hlúð er að honum. Ekki hefur verið hægt að spyrja manninn um slysið en flugvöllurinn er í talsverði fjarlægð frá þeim stað sem bifreiðin fór út í ána, skammt fyrir neðan Selfosskirkju klukkan 22:40 í gærkvöldi.
Flugvöllurinn er í tæplega þremur kílómetrum neðar en Selfosskirkja en enn er óútskýrt hvernig maðurinn komst á land, að sögn lögreglu.
Um eitt hundrað björgunarsveitarmenn hafa tekið þátt í leitinni auk lögreglu, slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslunnar og sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Svæðið er mjög erfitt til leitar þar sem áin er mjög djúp og straumhörð þar sem bílinn hafnaði út í.
Enn er leitað í og við ána en bifreiðin hefur ekki fundist og verið er að kanna það til fulls hvort maðurinn var einn á ferð þegar bifreiðin fór í ána.
Uppfært klukkan 11:59
Leit hefur verið hætt enda ljóst að ekki voru fleiri í bifreiðinni. Bifreiðarinnar verður ekki leitað frekar enda þykir það of hættuleg.
Maðurinn hefur nú verið fluttur á Landspítalann og mun hann dvelja þar í einhvern tíma. Ekki liggur enn ljóst fyrir hver aðburðarrásin var í gærkvöldi en það mun væntanlega skýrast á næstunni.