Dregið var úr leit að fólksbifreið og ökumanni hennar sem fóru í Ölfusá á Selfossi um miðja nótt en hún hefst að nýju í birtingu eða um sjö leytið. Þetta svæði er mjög erfitt til leitar en bíllinn fór út í ána skammt fyrir neðan kirkjuna á Selfossi þar sem áin er mjög djúp og straumhörð.
Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra í lögreglunni á Selfossi tóku björgunarsveitarmenn úr Árnessýslu þátt í leitinni í gærkvöldi og nótt auk kafara úr sérsveit ríkislögreglustjóra og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Landhelgisgæslunni. Jafnframt tók áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar þátt. Fastlega er gert ráð fyrir að leitin verði áfram viðamikil þar sem gengið verður meðfram ánni og leitað á bátum.
Vitað er hver ók bifreiðinni og hafa ættingjar hans verið upplýstir um málið.