Eintakið af ævisögu Reynis Traustasonar, sem hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson hefur undir höndum, barst útprentað og gormabundið á skrifstofu lögmannsins. Sigurður segist ekki vita hver sendi honum það.
Sigurður hefur birt myndir af handritinu á Facebook-síðu sinni, svo og efnisatriði. Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri DV, segir á sinni Facebook-síðu að enginn vafi leiki á að handritið sé fengið úr tölvupósti tveggja fyrrverandi starfsmanna DV og greinilegt sé að „Sigurður og vitorðsmenn hans“ hafi aðgang að tölvupóstum þeirra.
„Það er nú alltaf spurning hvað má og hvað má ekki,“ segir Sigurður um það hvort birta megi illa fengið efni. „Hingað til hef ég ekki birt neitt úr þessu sem að... Og ég veit ekki einu sinni hvort þetta er lokapródúsið eða hvað þetta er. Og enda stóð ekkert á þessu hver væri höfundurinn, annað en bara að ég get auðvitað ráðið í það. En ég var ekkert að velta þessu fyrir mér. Ég las þetta bara yfir mér til skemmtunnar og taldi hversu oft ég væri nefndur,“ segir hann.
Aðspurður segist Sigurður ekki vita hver sendi honum handritið og þá hafi hann ekki ástæðu til að ætla að það hafi verið illa fengið. „Nei, það held ég ekki. Reynir hlýtur að vita hverjum hann sendi þetta í tölvupósti,“ segir Sigurður en hann segist ekki hafa fylgst með fréttaflutningi af málinu í dag sökum annríkis.
En telur hann sig vera í rétti til að birta þetta?
„Já, ég held að ég sé alveg í fullum rétti til þess. Þetta er ekki höfundarmerkt einum eða neinum. Það er enginn höfundur tilgreindur og enginn útgefandi tilgreindur og það er bara gormainnbundið og stendur hérna framan á...,“ segir Sigurður og telur upp það sem gætu verið kaflaheiti.
Þetta handrit sem þú ert með er ekki höfundarmerkt?
„Nei, það er ekkert merki á því. Ekkert einasta merki. Þetta eru bara blöð. Það er ekki einu sinni blaðsíðutal á þessu,“ segir Sigurður.
Og þetta beið bara í pósthólfinu á vinnustaðnum þínum?
„Já já. Þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu.“