Þrír menn í haldi lögreglunnar

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti

Fimm manns voru handteknir í gær og í fyrradag í tengslum við rannsókn lögreglu á árásum á heimili manns á Akureyri. Þrír þeirra eru enn í haldi lögreglu, og voru tveir þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald, fram til næsta miðvikudags, í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Dómarinn í málinu tók sér hins vegar frest til dagsins í dag í máli þriðja mannsins. Hafa þeir allir komið áður við sögu hjá lögreglunni á Akureyri.

Fórnarlamb árásarinnar er fulltrúi sýslumannsins á Akureyri. Er talið að um hefndaraðgerð gagnvart honum hafi verið að ræða. Munu mennirnir hafa komið grímuklæddir heim til mannsins aðfaranótt miðvikudags og ógnað honum. Síðar um nóttina stóð bifreið mannsins í ljósum logum, og er talið að heimatilbúinni eldsprengju hafi verið kastað í hana, en hún stóð mannlaus við heimili fulltrúans. Lögreglumenn úr sérsveitinni vöktuðu hús mannsins í gærdag.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið við rannsókn málsins og stýrir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, henni. Hann segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi og að það sé litið mjög alvarlegum augum.

Öryggismál í skoðun

Ásdís Ármannsdóttir, sýslumaður á Akureyri, segir að starfsfólk embættisins sé slegið óhug vegna árásarinnar á heimili samstarfsmanns þess. Vitanlega geti fólk átt von á hótunum, sérstaklega lögreglumenn, en að svona skipulögð atlaga sé gerð að heimili manns sé einsdæmi. Ásdís segir í skoðun hvort efla þurfi öryggi við heimili annarra starfsmanna embættisins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert