Leit að bifreið og ökumanni sem fór í Ölfusá seint í gærkvöldi hefst fljótlega en undirbúningur stendur yfir. Bifreiðin fór í ána skammt frá Selfosskirkju en áin er straumhörð og djúp á þessum slóðum. Svæðið er afar erfitt til leitar.
Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra í lögreglunni á Selfossi tóku björgunarsveitarmenn úr Árnessýslu þátt í leitinni í gærkvöldi og nótt auk kafara úr sérsveit ríkislögreglustjóra og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Landhelgisgæslunni. Jafnframt tók áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar þátt í leitinni. Fastlega er gert ráð fyrir að leitin verði áfram viðamikil þar sem gengið verður meðfram ánni og leitað á bátum.