Auðveldlega farið framhjá lögbanni

Skjáskot af Deildu.net

Þrátt fyrir að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi að beiðni STEFs lagt lögbann á að stóru fjarskiptafyrirtækin veiti netnotendum aðgang að skráaskiptavefsíðunum deildu.net, deildu.com, piratebay.se, piratebay.sx og piratebay.org er mjög auðvelt að komast framhjá lögbanninu.

Sé lénið deildu.net slegið inn fer notandinn umsvifalaust á síðu sem hefur lénið icetracker.org og virkar alveg eins og deildu.net, hefur meira að segja sama útlit. Þar virkar sama lykilorð og á deildu.net og hefur því í raun ekkert breyst nema lénið.

Þegar inn er komið blasir við texti á forsíðunni þar sem stendur: Farðu framhjá þessari lokun. Sé smellt á það fer notandinn á spjallsvæði síðunnar þar sem hægt er að skoða hvernig á að nota forritið Thor til þess að fela ip-tölu tölvunnar og þannig er hægt að deila og ná í höfundarréttarvarið efni.

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, segir að það hafi verið viðbúið að einstaklingarnir á bak við vefsíðurnar myndu reyna að fela sig.

„Það var líka viðbúið að þeir myndu skipta um lén. Við ætlum okkur ekkert að láta þá í friði. Dómurinn segir að vefsvæðið sé ólöglegt burtséð frá hvað lénið heitir,“ segir hún og bendir á að þótt STEF hafi krafist banns á síðuna deildu.net lýsi héraðsdómur, sem fól sýslumanni að setja lögbannið, því yfir að innihald síðunnar sé höfundarréttarvarið og að ólöglegt sé að sækja slíkt efni án leyfis. „Svona eltingaleikur er ekki skemmtilegur en maður var viðbúinn svona útspili. Við höfum séð það í útlöndum að þegar erfiðara og tímafrekara er að ná í efnið, þótt það séu aðeins nokkur músaklikk til viðbótar, þá hefur dregið úr aðsókninni á þessa vefi,“ segir Guðrún Björk.

Hún bætir við að umræðan sé af hinu góða. „Ég vil líka trúa því að umræðan um þetta mál hafi hreyft við einhverjum sem voru kannski í einhverjum vafa um hvort þetta væri löglegt eða ólöglegt. Nú er að minnsta kosti kominn dómur um, að þetta vefsvæði er ólöglegt þannig að vonandi mun það höfða til samvisku fólks,“ segir Guðrún.

Niðurhal stoppar aldrei alveg

Skjárinn hefur sýningar á annari þáttaröð af Biggest Loser á nýju ári en sú fyrri var ákaflega vinsælt efni hjá niðurhölurum. Alls var þeim halað niður rúmlega 66 þúsund sinnum, samkvæmt tölum deildu.net - án þess að nokkur hefði borgað fyrir þá.

Friðrik Friðriksson, framkvæmdarstjóri Skjásins, segir að ljóst sé niðurhal muni aldrei hætta alveg. „Fyrir suma hefur málið verið óljóst og ýmsir jafnvel í góðri trú að það væri í lagi að sækja efni á þessum síðum. Við bindum vonir við að löghlýðnir átti sig en um leið vitum við að niðurhalið stoppar aldrei allt. Þannig að áhyggjurnar eru til staðar en okkur miðar áfram.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert