Engar upplýsingar um ferðir mannsins

Leitað var að manninum í og við Ölfusá aðfaranótt föstudagsins.
Leitað var að manninum í og við Ölfusá aðfaranótt föstudagsins. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Ekki fást frekari upplýsingar um ferðir mannsins sem leitað var að í og við Ölfusá á Selfossi aðfaranótt föstudags. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Selfossi er málið alfarið á borði rannsóknardeildarinnar og starfa starfsmenn hennar ekki um helgar.

Starfsmenn deildarinnar munu ræða við manninn eftir helgi, eða þegar hægt verður að spyrja hann um slysið. Hann dvelur nú á Landspítalanum og mun vera þar í einhvern tíma. 

Líkt og mbl.is greindi frá í gær segist lögregla ekki hafa ástæðu til að ætla annað en að maðurinn, sem fannst kaldur, blautur og hrakinn við flugvöllinn á Selfossi fyrir hádegi í gær hafi farið út í ána ásamt bílnum.

Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá lögreglu á Selfossi í gær fannst maðurinn í gröfu á geymslusvæði við flugvöllinn. Það reyndist þó ekki vera rétt, heldur kom maðurinn gangandi á móti björgunarsveitarmönnum sem voru við leit á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert