Mannanafnanefnd verður lögð niður og foreldrum gefið fullt frelsi til þess að ákveða nöfn barna sinna verði frumvarp til breytinga á lögum um mannanöfn sem lagt hefur verið fram á Alþingi samþykkt. Þá verður ennfremur heimilt að taka upp ný ættarnöfn en það hefur til þessa ekki verið heimilt. Frumvarpið er lagt fram af þingmönnum Bjartrar framtíðar.
„Með frumvarpi þessu er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana verði felld brott. Einnig er lagt til að þær kvaðir sem lög um mannanöfn fela í sér varðandi ættarnöfn verði felldar brott,“ segir í upphafi greinargerðar með frumvarpinu en fyrsti flutningsmaður þess er Óttarr Proppé, þingmaður Bjartar framtíðar. Þar segir ennfremur að meginmarkmið frumvarpsins sé „að undirstrika þá meginreglu varðandi nöfn og nafngiftir að almennt skuli gert ráð fyrir því að nöfn séu leyfð, að foreldrum sé treyst til að velja börnum sínum nafn og að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé virt.“
Með vísan í jafnræðisreglu stjórnarskrána er átt við það að ættarnöfn eru heimiluð ef þau ganga að erfðum frá foreldri til barns samkvæmt núgildandi lögum en óheimilt er hins vegar að taka upp ný ættarnöfn. Ljóst megi vera að ákvæði laganna um ættarnöfn standi vörð um rétt ákveðins hóps Íslendinga til þess að bera ættarnöfn byggð eru á erfðarétti eigi litla samleið með því alþjóðavædda og upplýsta fjölmenningarsamfélagi sem til staðar væri á Íslandi í dag.
Veldur ójafnræði á milli borgaranna
„Verndunarsjónarmiðin sem búa að baki því að tiltekin hópur Íslendinga hefur leyfi til að bera ættarnafn vegna erfða felur í sér ójafnræði milli þeira sem hafa þessi réttindi og þeirra sem hafa þau ekki. Hagsmunir almennings af því að búa í frjálsu samfélagi þar sem jafnræði er tryggt er mun ríkari en hagsmunir niðja þeirra fáu sem fengu í krafti forréttinda eða fjárhagslegrar stöðu sinnar að halda og eða velja sér ættarnöfn á síðustu öld,“ segir ennfremur.
Þá sé það tímaskekkja að gera þá kröfu að drengir beri karlmannsnöfn og stúlkur kvenmannsnöfn sem þurfi að leiðrétta. „Það er ekki hlutverk löggjafans að skilgreina hvað eru kvennmannsnöfn og hvað karlmannsnöfn. Með því er löggjafinn að takmarka frelsi einstaklingsins til að skilgreina sig og sitt kyn og gera tilraun til þess að hólfa margbreytilegan raunveruleikan niður í form sem hentar ekki mannverunni sem um ræðir hverju sinni.“
Vísað er í því sambandi til máls Blævar Bjarkardóttur gegn íslenska ríkinu en ekki hafði verið samþykkt að hún mætti heita Blær á þeim forsendum að það væri karlmannsnafn. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í upphafi síðasta árs að réttur hennar til nafns væri varinn af 71. grein stjórnarskrárinnar og að ekki hefði verið sýnt fram á að hagsmunir samfélagsins af því að hafna nafninu væru ríkari en réttur hennar tilað bera það.
Frumvarpið í heild má lesa hér að neðan.
Frétt mbl.is: Rétturinn til nafns friðhelgur