Umboðsmaður krefur ráðherra svara

Fiskistofa er til húsa að Dalshrauni 1 í Hafnarfirði.
Fiskistofa er til húsa að Dalshrauni 1 í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, hefur sent sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, bréf þar sem hann óskar eftir upplýsingum um á hvaða lagagrundvelli fyrirhugaður flutningur á Fiskistofu byggi.

Í bréfinu kemur fram að umboðsmaður takmarki athugun sína á flutningi stofnunarinnar til Akureyrar við það á hvaða lagaheimild ráðuneyti hafi byggt heimild sína til flutnings á höfuðstöðvum Fiskistofu til Akureyrar frá Hafnarfirði.

Tryggvi vísar í bréfi sínu til bréfs frá ráðuneytinu til starfsmanna Fiskistofu dagsettu þann 10. september þar sem starfsmönnum eru boðin ákveðin starfskjör og fjárgreiðslur vegna flutninga til Akureyrar. Hann óskar eftir því við ráðherra að svari því skriflega á hvaða lagaheimildum þetta byggi og þá með tilliti til þeirra starfskjara sem leiða af lögum um um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Eins óskar hann eftir svari frá Sigurði Inga varðandi afstöðu hans um að nú þurfi að fá afstöðu Alþingis til lagaheimildar til að flytja frá Hafnarfirði til Akureyrar og hvernig það samrýmist vönduðum stjórnsýsluháttum. Eins spyr hann hvort ráðherra hafi upplýst starfsmenn Fiskistofu um þetta breytta viðhorf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka