Julien Blanc kallar sig stefnumótaþjálfara, aðrir kalla hann ofbeldismann. Það vakti heimsathygli er myndband af honum að áreita konur í Tokyo í Japan fór á netið. Á myndbandinu sést Blanc taka harkalega um háls kvennanna og reyna að toga höfuð þeirra niður að klofi sínu. Í kjölfarið var honum bannað að halda námskeið í Ástralíu. Jafnframt hafa verið opnaðir undirskriftarlistar gegn komu Blanc til Englands, Kanada, Brasilíu og nú Íslands.
Blanc fer út um allan heim og heldur námskeið í hvernig skal haga sér i kringum konur. Nú segist hann vera á leið til Íslands í sumar til þess að halda námskeið og hefur nú verið opnaður undirskriftarlisti á netinu gegn því að Blanc fái að koma hingað.
150 þúsund manns hafa skrifað undir samskonar undirskriftarlista gegn því að Blanc fái að koma til Bretlands í febrúar til þess að halda námskeið. Jafnframt eru yfirvöld í Ástralíu, Englandi og Bandaríkjunum að skoða hvort hægt sé að setja lögbann á komu mannsins.
Blanc hefur verið gagnrýndur út um allan heim fyrir ummæli sín um konur og fyrir að tala jákvætt um til dæmis nauðganir og annað ofbeldi gegn konum. „Ef þú ert hvítur karlmaður geturu gert hvað sem þú vilt“ á Blanc að hafa sagt í einu myndbandi samkvæmt The Mirror.
Viðtal við Blanc birtist á sjónvarpsstöðinni CNN í gærmorgun. Þar biðst hann afsökunar á hegðun sinni og segir að mörg myndbönd, Twitter færslur, og tilvitnanir frá honum hafi verið tekin úr samhengi. Sagði hann jafnframt að síðustu vikur, þar sem hann hefur verið harðlega gagnrýndur, hafi verið „yfirþyrmandi“.
„Ég vil biðja alla þá sem ég hef móðgað afsökunar. Það var aldrei minn ásetningur. Mér þykir þetta mjög miður,“ sagði Blanc í viðtalinu í gær. „Þetta var hræðileg tilraun til þess að vera fyndinn,“ sagði hann og bætti við að margt að þessu hafi verið tekið úr samhengi.
Í viðtalinu ver Blanc námskeiðin sín og segir að hann kenni karlmönnum sjálfsöryggi í kringum konur og hvernig skal haga sér í kringum konur. Hann fullyrðir það að margir sem mætt hafa á námskeið hjá honum hafi í kjölfarið kynnst eiginkonum sínum.
„Margir hafa kynnst framtíðareiginkonum sínum vegna námskeiðsins. Ég veit það því ég hef fengið marga tölvupósta og jafnvel verið boðið í nokkur brúðkaup fyrrverandi viðskiptavina,“ segir Blanc.
Spyrill CNN sýnir Blanc töflu sem hann hafði sjálfur sett á Twitter. Sú tafla var gefin út af samtökum sem aðstoða konur sem eru í ofbeldissamböndum.
Blanc setti það á Twitter ásamt „hashtagginu“ #howtomakethemstay eða Hvernig skal láta þær vera áfram.
„Þetta er ekki eitthvað sem ég kenni. Þetta er andstæðan við það sem ég kenni. Ég hélt að með þessu væri ég að gera grín af þessu. Ég sé eftir því,“ segir Blanc. Hann kennir sinni eigin heimsku um viðbrögðin nokkrum sinnum í viðtalinu og segir jafnframt „Ég hélt ég væri að vera fyndinn.“
Sama hvað Blanc segir í viðtalinu er ekki hægt að líta framhjá orðum hans bæði á Twitter og á myndböndum.
Á síðunni þar sem hægt er að nálgast undirskriftarlista gegn því að Blanc komi til Íslands eru birt skjáskot af Twitter aðgangi hans. Færslur Blanc eru vægast sagt grófar.
„Heitustu konurnar eru oft með minnsta sjálfsöryggið þannig að ekki gleyma að koma fram við þær eins og rusl“ sagði í einni færslu og „Borgið mér og nauðgið þeim öllum“
Hér er hægt að sjá viðtalið við Blanc á CNN.
Hér er hægt að skrifa undir yfirlýsingu gegn því að Blanc komi hingað til lands og haldi námskeið.