Sjóvá tók lán til að minnka greiðslubyrði Milestone

Merki Milestone
Merki Milestone

Sex hundruð milljón króna lán sem Sjóvá-Almennar tryggingar tók hjá Ingunni Wernersdóttur var notað til að minnka greiðslubyrði Milestone vegna kaupa á hlutum Ingunnar í síðarnefnda félaginu. Ekki var gerður samningur um umrætt lán Sjóvár. Þetta kom fram á öðrum degi aðalmeðferðar í máli gegn stjórnendum Milestone.

Í mál­inu eru Guðmund­ur Ólason, fv. for­stjóri Milest­one, Karl Werners­son, fv. stjórn­ar­formaður, og Stein­grím­ur Werner­son, fv. stjórn­ar­maður, ákærðir vegna greiðslna til Ing­unn­ar Werners­dótt­ur en þær námu á sjötta millj­arð króna.

Jafn­framt eru end­ur­skoðend­urn­ir Hrafn­hild­ur Fann­geirs­dótt­ir, Mar­grét Guðjóns­dótt­ir og Sig­urþór Char­les Guðmunds­son, öll frá end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­inu KPMG, ákærð fyr­ir brot gegn lög­um um end­ur­skoðend­ur. Þau Mar­grét og Sig­urþór eru enn­frem­ur ákærð fyr­ir meiri­hátt­ar brot á lög­um um árs­reikn­inga vegna viðskipt­anna.

Engir skriflegir samningar

Meðal annars var í dag tekin skýrsla af Arnari Guðmundssyni, fyrrverandi fjármálastjóra Milestone. Borin voru undir hann gögn sem hann sendi á stjórnendur Milestone en þau sýndu að þegar líða tók á árið 2006 hafi félagið lent í vandræðum með að greiða Ingunni á réttum tíma vegna fjárhagsvandræða. Hann staðfesti einnig að með víkjandi láni Ingunnar til Sjóvár hafi hún fjórum sinnum fengið greiddar 150 milljón krónur frá tryggingafélaginu og að með því fyrirkomulagi hafi Milestone getað lækkað greiðslubyrði sína gagnvart Ingunni á síðari hluta ársins 2006.

Í ákæru segir að það hafi verið látið líta svo út að Sjóvá hefði tekið víkjandi lán hjá Ingunni, sem Sjóvá skyldi endurgreiða með vöxtum. Ingunn greiddi Sjóvá hins vegar aldrei út lánið en í stað þess var færð í bókhaldi Sjóvár krafa á hendur Milestone, móðurfélagi Sjóvá. Engir skriflegir samningar lágu fyrir um þessi viðskipti.

„Allar ákvarðanir varðandi þessa svokölluðu lánveitingu voru teknar af eigendum og stjórnendum Milestone. Sjóvá sat þannig uppi með 600.000.000 króna skuld gagnvart Ingunni en eignaðist í staðinn kröfu á Milestone. Milestone var þannig látið taka á sig skuldbindingu gagnvart Sjóvá vegna þátttöku í fjármögnun hlutafjárkaupanna,“ segir í ákærunni.

Arnar staðfesti einnig fyrir dómi í dag að áhætta vegna þessara viðskipta hefði legið hjá Milestone. Hann kvaðst ekki muna eftir því að samningar hafi verið gerðir vegna viðskiptanna en „þetta hefur líklega farið í gegnum viðskiptareikning.“

Frétt mbl.is: Ómeðvitaður eigandi eignarhaldsfélaga

Frétt mbl.is: „Þetta hefur farið laglega úr böndunum“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert