Jólatónleikar og próf falli niður

Ef ekki fer að leysast úr kjaradeilu Félags tónlistarkennara (FT) og sveitafélaganna munu jólatónleikar nemenda að öllum líkindum falla niður í mörgum tónlistarskólum landsins. Edda Borg, skólastjóri Tónlistarskóla Eddu Borg, segir þetta afar leiðinlegt mál sem geti haft mikil áhrif á nemendur.

„Venjulega erum við með um fimm jólatónleika, en ef þetta fer ekki að leysast þá verðum við kannski með tvo,“ segir hún. „Þetta er mjög leiðinlegt.“

Tónlistarkennarar í FT hafa nú verið í verkfalli í um mánuð, en kennarar í Félagi íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) eru með annan kjarasamning og hafa því starfað óbreytt. Edda segir þetta gera það að verkum að um helmingur nemenda skólans hafi misst úr sína tíma, en þeir sem sæki tíma hjá kennurum í stéttarfélagi FÍH hafi fengið kennslu. 

„Það er mjög bagalegt að þurfa að halda tónleika fyrir aðeins hluta nemenda og leyfa hinum ekki að taka þátt í því,“ segir Edda. Hún segir um 150 nemendur í tónlistarskólanum, en rúmlega helmingur þeirra hefur enga kennslu fengið síðasta mánuðinn.  „Við höfum til dæmis heyrt af fjölskyldum þar sem annað barnið getur fengið sína tónlistarkennslu en hitt barnið situr heima.

Allir orðnir mjög leiðir á þessu

Að sögn Eddu er lítið um að vera í skólanum, og eru kennarar orðnir afar þreyttir á ástandinu. „Það er lítið líf og lítil stemning. Við söknum kennaranna afskaplega mikið og viljum fá þau til starfa sem fyrst,“ segir hún, en bætir við að kennurum í FT hafi verið meinaður aðgangur að skólanum, svo hún hafi ekki haft tækifæri til að ræða við þá. „En ég hef heyrt í nokkrum í síma og það eru allir orðnir mjög leiðir á þessu.“

Þá segir hún það hafa mikil áhrif á nemendur ef tímar þeirra falla niður, og geti það leitt til þess að þeir æfi sig minna, og jafnvel missi áhuga á náminu. „Þegar nemandi hefur ekki kennarann sinn til að hitta reglulega þá fer hann að slaka á æfingum heima fyrir. Nemendur gætu haft hættu á að missa áhugann,“ segir hún.

Nemendur gætu flosnað upp úr námi

Edda segist vera farin að horfa fram á vorið og sér fram á það að þurfa að sleppa vorprófum og gefa nemendum vetrarumsögn í staðinn, fari ekki að leysast úr kjaradeilunni. „En það veltur auðvitað á því hversu lengi verkfallið mun standa. Ef það dregst mikið lengur held ég að það sé ekki ástæða til að senda alla í próf að vori.“

Þá segist hún áhyggjufull um það að nemendur muni flosna upp úr náminu og ekki snúa aftur á vorönn. „Foreldrar nokkurra nemenda hafa haft samband vegna þessa og sumum finnst veturinn hálfónýtur. Að því leytinu til er þetta mjög alvarlegt,“ segir hún.

„Við vonum að samninganefnd sveitafélaganna og FT fari að ná saman sem fyrst.“

Edda Borg, tónlistarkona og kennari.
Edda Borg, tónlistarkona og kennari. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert